Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Útboð Vegagerðarinnar: Tvöföldun Reykjanesbrautar að Njarðvík skal lokið í júní 2008
Þriðjudagur 27. september 2005 kl. 23:57

Útboð Vegagerðarinnar: Tvöföldun Reykjanesbrautar að Njarðvík skal lokið í júní 2008

Framhald á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Strandarheiði að Njarðvík var boðið út í dag. Gert er ráð fyrir að verkinu verði að fullu lokið 1. júní 2008 og er skilafrestur á tilboðum til þriðjudagsins 8. nóvember, nánar tiltekið kl. 14, og verða tilboð opnuð þann dag.

Um er að ræða 12.2 km langan kafla frá Strandarheiði að Fitjum í Reykjanesbæ ásamt byggingu tveggja brúa við Vogaveg, tveggja brúa við Skógfellaveg, tveggja brúa við Grindavíkurveg og tveggja brúa við Njarðvíkurveg með tilheyrandi römpum, hringtorgum og þvervegum.

Helstu magntölur útboðsins eru:
Bergskering 145.200 m3
Fylling 383.000 m3
Fláafleygar 125.000 m3
Ónothæft efni á tipp 297.000 m3
Neðra burðarlag 117.000 m3
Efra burðarlag 46.200 m3
Malbik 240.500 m2
Slitlag og axlir úr K2 48.800 m2
Frágangur fláa 223.400 m2
Mótafletir 4.760 m2
Steypustyrktarjárn 279.000 kg
Eftirspennt járnalögn 33.400 kg
Steinsteypa 1.910 m3

Vinnu við fyrri kafla, frá Hvassahrauni að Strandarheiði, lauk í júlí á síðasta ári og hefur verið sjáanleg fækkun á alvarlegum bílslysum á þeim kafla. Framkvæmdaraðilar við þá framkvæmd, Háfell, Jarðvélar og Eykt, kláruðu verkið mörgum mánuðum fyrir áætluð verklok og verður athyglisvert að sjá hvort verktakar við næsta áfanga verði eins fljótir í förum.

Auk áframhaldandi tvöföldunar Reykjanesbrautar er á næstunni að vænta frekari útboða á vegaframkvæmdum á Suðurnesjum, meðal þeirra eru framkvæmdir við svokallaðan Ósabotnaveg frá Stafnesi að Höfnum sem og endurbætur á Nesvegi frá Grindavík að Reykjanesvirkjun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024