Útbjuggu ferðaklósett úr þvottafötunni
Rúta á vegum SBK sat föst, eins og margir aðrir, við Grindavíkurvegamót á föstudaginn í sjö klukkustundir. Í rútunni var 37 manna hópur á vegum Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum en fólkið var að koma úr heimsókn í nunnuklaustrið í Garðabæ. Tveir karlmenn voru í rútunni og að sögn Guðmundar Steindórssonar, bílstjóra, væsti ekki um kvenfólkið sem var í góðum höndum og heitum bíl.„Við urðum stopp um fimm leytið vegna þess að við komumst ekki framúr öllum bílunum sem tepptu Reykjanesbrautina“, segir Guðmundur. „Við höfðum það sennilega best af öllum þarna á brautinni því við vorum í 26 gráðu heitum bíl með olíumiðstöð. Við útbjuggum ferðaklósett í snarheitum úr þvottafötunni svo að þetta hefði ekki getað verið betra“, segir Guðmundur og ekki verður annað sagt en neyðin kenni naktri konu að spinna. „Ein kona var send heim með jeppa því hún var með barn á brjósti og þurfti að komast heim eins fljótt og mögulegt var. Uppúr miðnætti voru farþegarnir selfluttir af björgunarsveitarbílum og jeppum í áföngum“, segir Guðmundur eftir þessa ævintýralegu og eftirminnilegu ferð. Guðmundur hefur þá skoðun að hægt hefði verið að skipuleggja björgunaraðgerðir með öðrum hætti en gert var. „Það hefði átt að flytja fólk úr köldum bílum yfir í rútuna, sem var heit. Þá hefði verið hægt að fara fyrr í að færa bíla sem tepptu veginn og flýta þannig fyrir björgunaraðgerðum. Þeir hefðu átt að kjaftfylla rútuna og koma henni suðureftir og spara þar með margar jeppaferðir. Auðvitað var þetta erfitt ástand en mér finnst að fólk þurfi að hafa þetta í huga þegar svona aðstæður skapast aftur“, sagði Guðmundur rútubílstjóri að lokum.