Utanríkisráðherra: Tilbúinn að mæta á fund hvenær sem er
Vegna umfjöllunar Víkurfrétta um að bæjarstjórnir á Suðurnesjum séu hunsaðar af utanríkis- og forsætisráðherra vill Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, koma því á framfæri að hann viti ekki til þess að bæjarstjórnir Reykjanesbæjar og Sandgerðis hafi óskað eftir fundi með honum. En aftur á móti höfðu forystumenn verkalýðshreyfinga á Suðurnesjum óskað eftir fundi með honum og fengið hann daginn eftir.
„Ég hef látið fara í gegnum viðtalsbeiðnir hér á minni skrifstofu og ég kannast ekki við að hér hafi verið óskað sérstaklega eftir fundi með mér um þessi mál,“ segir Halldór. Hann segir að varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins sé í stöðugu sambandi við sveitarstjórnamenn og aðra á Suðurnesjum. Hvað varðar þær óskir um fund með honum segir hann: „Þeir þurfa þá að óska eftir fundi og það hafa þeir ekki gert við mig“. Halldór segir einnig að ef að sveitarstjórnarmenn óska eftir fundi með honum þá geta þeir að sjálfsögðu fengið hann.
Eins og kom fram í fréttum Víkurfrétta í dag, þá sagði Sigurður Valur, bæjarstjóri Sandgerðis, að honum fyndist það alvarlegt mál þegar menn sem eru kosnir til að starfa fyrir fólkið á svæðinu skuli frétta um uppsagnir í fjölmiðlum. „Ég tel nú að þessi ummæli hans séu út í hött og séu lítið innlegg í þau vandamál sem blasa við“, segir Halldór.
„Menn hafa verið að vinna með aðilum að uppbyggingu stóriðju í þessu landi og virkjanaframkvæmdum, við höfum verið að vinna að uppbyggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og menn eru að vinna að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Þannig að það er ekki rétt að ekkert hafi gerst en ég geri mér grein fyrir því að þetta er viðkvæmt ástand og það ríkir óvissa en því miður höfum við ekki frekari svör um það hvað gerist í sambandi við varnarliðið á þessu stigi“.
Halldór segir að verið sé að bíða eftir svari frá Bandaríkjunum og að það hafi margoft komið fram. Um framtíð varnarliðsins sagði hann: „Ég get ekki sagt neitt meira um það á þessu stigi en ég hef sagt að ég óttist frekari uppsagnir vegna sparnaðar hjá varnarliðinu en hef ekki frekari upplýsingar um það á þessu stigi, ég hef beðið varnarliðið að hafa náið samráð um það við okkur og verkalýðshreyfinguna á suðurnesjum“.
Hvort megi búast við fundi á næstunni með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum segir Halldór að hann hafi rætt við Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, í dag og tjáð honum að hann sé tilbúinn að hitta hans menn hvenær sem er.
Myndin: Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra við yfirmannaskipti á Keflavíkurflugvelli á dögunum. VF-mynd: Páll Ketilsson