Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Utanríkisráðherra telur ekki ástæðu til að ætla að frekari uppsagnir verði hjá Varnarliðinu
Föstudagur 28. nóvember 2003 kl. 11:51

Utanríkisráðherra telur ekki ástæðu til að ætla að frekari uppsagnir verði hjá Varnarliðinu

Í utandagskrárumræðu um uppsagnir hjá Varnarliðinu sem Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingarinnar hóf máls utan dagskrár í morgun sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra að engar upplýsingar lægju fyrir um frekari uppsagnir hjá Varnarliðinu. Jón Gunnarsson lagði fram fyrirspurn til ráðherra í þremur liðum þar sem hann spurði meðal annars um hvort ráðherra hefði upplýsingar um frekari samdrátt og hvernig stjórnvöld hygðust bregðast við atvinnuástandi á Suðurnesjum.

Í framsögu sinni sagði Jón að fruntalega hafi verið staðið að uppsögnunum og að þær hafi komið verulega á óvart. Jón benti á að umræður væru um það að uppsagnirnar væru einungis upphafið á miklum samdráttaraðgerðum. Jón krafðist þess að stjórnvöld upplýsi um ástand mála og grípi til aðgerða sem minnki áhrif uppsagna Varnarliðsins.

Í máli utanríkisráðherra kom fram að, í kjölfar fyrirspurnar um sértækar aðgerðir til að efla atvinnu á svæðinu, að unnið væri að ýmsum stórum verkefnum á svæðinu og að framundan væru stór verkefni. Nefndi hann í því sambandi tvöföldun Reykjanesbrautar, lagningu Suðurstrandarvegar, aukin umsvif Flugleiða og Keflavíkurflugvelli og að ráðist yrði í stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Fjölmargir þingmenn tóku til máls við umræðuna og bentu stjórnarliðar á að varnar- og öryggismál Íslendinga væru ekki tengd atvinnumálum á Suðurnesjum. Í máli þeirra kom fram að aðgerða væri þörf á Suðurnesjum til að bregðast við atvinnuleysi á svæðinu. Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu stjórnarflokkana fyrir aðgerðaleysi og töldu að bregðast hefði átt við samdrætti mun fyrr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024