Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Utanríkisráðherra Taívan faldi sig á bakvið sætisbak í rútu
Fimmtudagur 30. júní 2005 kl. 16:47

Utanríkisráðherra Taívan faldi sig á bakvið sætisbak í rútu

Það var ekki mikil reisn yfir Dr. Tan Sun Chen, utanríkisráðherra Taívan þegar hann kom til Keflavíkurflugvallar um miðjan dag. Hann hraðaði sér út í rútu og lokaði sig þar inni í um hálfa klukkustund á meðan beðið var eftir farangri hans og sendinefndarinnar sem fylgdi honum.

Ekki var gefið tækifæri á myndatökum og eftir að Dr. Tan Sun Chen  og hans fólk var komið inn í rútuna faldi það sig á bakvið sætisbök og renndi að endingu gluggatjöldum fyrir.

Bylgjan greindi frá því í dag að Kínverjar væru æfir vegna komu utanríkisráðherra Taívans hingað til lands og hafa í hótunum. Kínverska sendiráðið leitar allra leiða til að koma í veg fyrir heimsóknina.

Ástæðan er óttinn við reiði Kínverja, sem líta á Taívan sem uppreisnarhérað og viðurkenna ekki sjálfstæði landsins frekar en flestar aðrar þjóðir. Þeir taka því ekki vel þegar heimsóknir af þessu tagi eiga sér stað - sama með hvaða formerkjum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Bylgjunnar í dag hefur sendiráðið gert athugasemdir við íslenska utanríkisráðuneytið og meðal annars hótað því að viðskiptasamningum verði rift, jafnvel að reynt verði að spilla fyrir Íslendingum á alþjóðavettvangi.

Utanríkisráðherra Taívans hefur hins vegar á undanförnum misserum heimsótt meðal annars Tékkland og Frakkland án þess að fregnir hafi borist af neinum afleiðingum, og hann kemur hingað til lands frá Noregi, þar sem hann mun hafa átt fundi af ýmsu tagi.

Myndin: Dr. Tan Sun Chen forðaðist myndavélar við Leifsstöð. Hann hraðaði sér út í rútu og faldi sig þar á bakvið sætisbak og hélt höndum fyrir andlitinu. VF-mynd: Atli Már / Texti: Hilmar Bragi og Vísir.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024