Útafakstur, vímaðir ökumenn og ungur skemmtistaðagestur
Lögreglan á Suðurnesjum hefur haft í ýmsu að snúast um helgina. Laust eftir miðnætti í gærnótt missti ökumaður jeppabifreiðar ökutæki sitt út af Vatnsleysustrandarvegi. Tveir voru í bifreiðinni og sluppu þeir með minniháttar meiðsl. Hins vegar varð talsvert tjón á bifreiðinni.
Skömmu áður var tilkynnt um árekstur í Grindavík og hafði tjónvaldur látið sig hverfa af vettvangi. Lögreglumen leituðu hann uppi og er hann grunaður um ölvun við akstur. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir um nóttina í Reykjanesbæ, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Einn ökumaður var stöðvaður á 124 km hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Lögreglumenn sem voru við eftirlit á skemmtistöðunum í Reykjanesbæ höfðu afskipti af einum gestanna sem reyndist aðeins 17 ára gamall og hafði villt á sér heimildir með skilríkjum annars manns. Forráðamanni gert að sækja soninn á lögreglustöð.
Þá urðu tveir minniháttar árekstrar á Hafnargötunni í nótt vegna mikillar hálku.