Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Úrskurðaður látinn á vettvangi
    Frá leitinni í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Úrskurðaður látinn á vettvangi
    Frá leitinni í dag.
Mánudagur 24. nóvember 2014 kl. 16:28

Úrskurðaður látinn á vettvangi

– Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Maður sem lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir og leitaði að með aðstoð björgunarsveita fannst látinn kl. 12:10 í dag á Miðnesheiði norður af öryggisgirðingu sem afmarkar haftasvæði Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í tilkynninu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Maðurinn var í heimsókn hjá ættingjum sínum hér á landi en hann var pólskur, 42 ára að aldri, og mun hafa átt við andleg veikindi að stríða. Hann fór frá dvalarstað sínum í Reykjanesbæ um kl. 17:30 í gær og þegar hann skilaði sér ekki heim leituðu ættingjar hans til lögreglu sem fór að svipast um eftir manninum sem var af og til í símasambandi við ættingja sína.

Um kl. 23 í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð björgunarsveita og hófst skipuleg leit að manninum um miðnættið. Veður fór þá versnandi með vaxandi hvassviðri og rigningu. Um kl. 01 ræddi maðurinn símleiðis við ættingja og gat þá ekki gert grein fyrir því hvar hann var en sagðist vera orðinn blautur og kaldur.

Um kl. 02 var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og kom hún til leitar.

Björgunarsveitarmenn fundu síðan manninn eins og áður segir og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Ekki er talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti en lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024