Úrbætur og forvarnir vegna loftgæða í skólamannvirkjum Reykjanesbæjar
Úttekt vegna loftgæða og hugsanlegra raka- og mygluskemmda í Myllubakkaskóla sýnir skemmdir á afmörkuðum svæðum innan veggja skólans. Að mati sérfræðinga Mannvits eiga skemmdirnar ekki að þurfa að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans, enda hafi verið gripið til fullnægjandi ráðstafana. Framkvæmdaráætlun úrbóta liggur fyrir og mun sú vinna hefjast strax sem og vinna við fyrirbyggjandi aðgerðir. Þetta kemur fram á vef Reykjanesbæjar.
Síðastliðið haust ákvað Reykjanesbær að fara í úttekt á skólamannvirkjum sem fyrirbyggjandi aðgerð, sem og til forgangsröðunar viðhalds vegna loftgæða grunnskóla. Verkfræðistofan Mannvit hefur víðtæka reynslu af slíkum úttektum húsnæðis og var fengin til verksins. Vísbendingar um örveruvöxt sem líklegast er að komi frá rakaskemmdum fundust á afmörkuðum svæðum innan veggja skólans. Sérfræðingar Mannvits töldu að grípa þyrfti til ráðstafana og þær eru þegar hafnar, en að þeim uppfylltum eigi skemmdirnar ekki að þurfa að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans.
Starfsmenn Mannvits fóru um byggingarnar í fylgd starfsmanna skólans og fengu upplýsingar um hvar rakaskemmdir höfðu orðið og hvar starfsmenn hafa fundið fyrir vanlíðan. Mannvit beindi aðalega sjónum að þeim stöðum sem ábendingar höfðu komið fram um, en einnig voru aðrir hlutar skólans skoðaðir og tekin sýni víða í húsnæðinu.
Vísbendingar um örveruvöxt sem líklegast er að komi frá rakaskemmdum fundust á afmörkuðum svæðum innan veggja skólans. Mestu vísbendingarnar fundust í tveimur stofum, textílstofu og stofu 15 og verður farið í að laga þær stofur strax ásamt íþróttahúsi og myndlistarstofu sem þurfa einnig lagfæringar við. Umrædd svæði verða tekin úr notkun á meðan viðgerðir standa yfir. Þegar viðgerðum á skemmdum verður lokið, verður strax ráðist í víðtækar hreingerningar á húsnæðinu og af því loknu verður sýnataka fljótlega endurtekin.
Reykjanesbær er að hefja framkvæmdir á þeim svæðum sem báru ummerki um örveruvöxt og verður lögð áhersla á að klára allar viðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir sem fyrst.