Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Úr alvarlegum meiðslum í nám og atvinnu
Jón Gunnar Kristinsson.
Miðvikudagur 5. desember 2012 kl. 09:35

Úr alvarlegum meiðslum í nám og atvinnu

Jón Gunnar Kristinsson er einn fjölmargra sem nýtt hefur sér starfsendurhæfingu hjá Samvinnu í þeirri viðleitni að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

„Ég kom hingað inn vegna bak- og hálsvandamála sem ég hlaut í fimm bílslysum á sjö ára tímabili. Ég virtist einfaldlega draga að mér óheppna bílstjóra sem ítrekað óku á mig,“ segir Jón Gunnar um ástæður þess að hann leitaði til Samvinnu.

„Mitt versta slys varð árið 1998 á Reykjanesbrautinni margfrægu en ekið var aftan á mig á 110 kílómetra hraða þar sem ég var stopp til að beygja inn á Vatnsleysuströnd á leið minni til vinnu. Við þetta slys snérist upp á bakið á mér frá mjóbaki og upp í háls og þar byrjuðu vandamálin mín. Hin slysin sem eftir komu gerðu svo illt verra þar sem þau ýfðu alltaf upp meiðslin eftir fyrsta slysið og líkami minn náði ekki að jafna sig aftur og verkirnir urðu krónískir“.

Jón Gunnar segir að hann hafi alltaf verið verkamaður. Hann er með vinnuvélaréttindi og meirapróf en vegna meiðslanna þá hafi hann farið mikið á milli starfa þar sem að hann varð að finna sér atvinnu sem að bakið á sér réð við í hvert skipti.
„Ég endaði á því að finna mér skrifstofustarf hjá stóru fyrirtæki og taldi meiðsli mín ekki átt að hafa áhrif á getu í því starfi sem ég sinnti ötullega á fimmta ár. Þarna gerði ég stærstu mistökin á mínum vinnuferli,“ segir Jón Gunnar og bætir við: „Um leið og ég settist niður þá hætti ég að hreyfa mig eða reyna á þá vöðvahópa sem verst fóru í mínum slysum. Ég varð það slæmur á endanum að ég gat ekki unnið, sofið, staðið, setið eða legið og framtíðarhorfur mínar voru ekki bjartar.

Hann segist hafa orðið bitur, reiður, daufur og leiður. „Ég var niðurbrotinn með meiru en neitaði að gefast upp. Ég pantaði mér tíma hjá lækni til að byrja upp á nýtt við að koma bakinu á mér í stand. Þessi frábæri læknir benti mér á Samvinnu og þau úrræði sem þar eru í boði fyrir fólk í minni aðstöðu. Ég komst inn á vegum Virk starfsendurhæfingarsjóðs og hóf mína endurhæfingu sem innihélt sjúkraþjálfun og hreyfingu í sjúkraþjálfuninni Átaki. Við fengum fjármálanámskeið sem kom reglu á fjármálin. Ég fékk heilmikla sjálfsstyrkingu sem á ótrúlega stuttum tíma fyllti mig af sjálfstrausti, bjartsýni og gleði,“ segir Jón Gunnar.

Hann segist hafa lent í frábærum hópi fólks hjá Samvinnu, sem sýndi mikla samstöðu og rútína komst á lífið.

„Það hafði lengi blundað í mér draumur að vinna við matvælaframleiðslu en ég hef aldrei treyst mér til að sækja þangað eða þar til að snillingarnir hjá Samvinnu redduðu mér starfsþjálfunarplássi í gróðrarstöðinni Glitbrá í Sandgerði. Hún Gunnhildur Ása í Glitbrá og hennar starfsmenn og fjölskylda tóku mér fagnandi og voru frábær í alla staði. Þar var rekið á eftir mér að slappa af og taka því rólega. Ása sagði mér að finna mín takmörk og vinna með meiðslunum. Ég byrjaði nú ekki vel, entist í þetta 2 til 3 tíma á dag og þá var deginum lokið hjá mér vegna verkja,“ segir Jón Gunnar.

„Ég fékk að vera allt sumarið hjá Ásu og í lok sumars var ég farinn að standa í allt að 6 tíma á dag og var þetta einmitt það sem ég þurfti með minni sjúkraþjálfun til að styrkja mig enn meira.  Þó svo þetta hafi verið erfitt og ég hafi farið heim og verkjað í bakið eftir hvern vinnudag þá hafði áhuginn og ánægjan sigur og ég hélt þetta út. Í kjölfarið á þessari reynslu hef ég í dag skýra framtíðarsýn. Stefnan var tekin á nám og byrjaði ég það núna í haust hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum þar sem ég fór í Grunnmenntaskólann á vegum Virk og Samvinnu“.

Jón Gunnar segir að eftir útskrift þar sé stefna tekin á Garðyrkjuskólann þar sem hann langar að leggja fyrir sig ylrækt og á endanum að opna sína eigin gróðrarstöð. Þar sem hann getur eytt sínum tíma á sínum hraða við eitthvað sem hann hefur gaman að.
„Í mínum huga þá er engin spurning að ég hefði ekki komist á þann stað þar sem ég er í dag án þeirrar aðstoðar og styrks sem að Samvinna veitir mér. Starfsfólkið og kennarar hérna leggja sig öll fram við að gera þetta að góðri upplifun og þau leggja ótrúlega mikið á sig til að finna eitthvað sem hentar þeim sem leita til þeirra.  Ég ætla að halda ótrauður áfram og mun ég ávallt muna þá góðmennsku sem hérna býr og ekkert annað en þakklæti kemst að þegar að ég hugsa til baka þetta ár sem liðið er síðan að ég datt hingað inn,“ segir Jón Gunnar Kristinsson um veru sína hjá Samvinnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024