Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Upptökur á nýju lagi Grindvíkinga í Grindavíkurkirkju
Vignir Snær Vigfússon og Kristján Hrannar Pálsson í Grindavíkurkirkju. VF/Sigurbjörn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. maí 2024 kl. 06:01

Upptökur á nýju lagi Grindvíkinga í Grindavíkurkirkju

Líf fæddist í Grindavíkurkirkju í síðustu viku en þá mætti organistinn Kristján Hrannar Pálsson þangað ásamt tónlistarmanninum og upptökustjóranum Vigni Snæ Vigfússyni, sem er líklega best þekktur sem Vignir í Írafár. Kristján Hrannar var að spila kirkjuorgel í nýju lagi sem grindvísk feðgin sömdu saman og fjallar textinn um Grindavík, raunir Grindvíkinga og vonir þeirra um framtíð bæjarins.

Kristjáni var ljúft og skylt að verða við beiðni Grindvíkinganna um að ljá lagi þeirra kirkjuorgelleik sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar söngkonan Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir bar hugmyndina undir mig fyrr í vetur, var ekki nokkur spurning í mínum huga að gera þetta með henni, Sigurbirni pabba hennar og Mikael Tamar Elíassyni. Ég er organisti Grindavíkurkirkju og lít á þetta sem hluta af þeim verkefnum sem ég fæ upp í hendurnar í Grindavík. Þetta er samstarfsverkefni þeirra, Sigurbjörn samdi fallegt gítarplokk, Arney samdi laglínuna og hún og Mikael Tamar Elíasson sömdu textann. Arney var byrjuð að semja texta áður en ósköpin gengu yfir þar sem þessi lína koma fyrir; „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“ Hún skaut hugmynd að pabba sínum um að semja saman lag um raunir Grindvíkinga og Sigurbjörn benti henni á að lagið væri til, hún þyrfti bara aðeins að eiga við textann. Arney gerði það, var samt ekki nógu ánægð með textann og bauð Mikael Tamari að vera með, hann var heldur betur klár í slaginn og hér erum við í dag, með mjög fallegt lag og grunar mig að margur Grindvíkingurinn eigi eftir að fella tár þegar hlustað verður,“ sagði Kristján Hrannar.

Vignir Snær var á báðum áttum með að taka kirkjuorgelið upp í Grindavíkurkirkju.

„Ég hef eins og aðrir Íslendingar bara séð og heyrt fréttir af ástandinu í Grindavík og var í fyrstu frekar smeykur við að fara þangað. Sibbi var síðan búinn að sannfæra mig en fréttir síðustu daga fengu mig aftur til að efast og ekki batnaði ástandið þegar vinur minn spurði mig hvort ég væri genginn af göflunum, hvort ég ætlaði virkilega að leggja mig í slíka hættu! Sibbi náði aftur að róa mig og ég sá þegar ég kom inn í bæinn hversu mikið búið er að ýkja ástandið upp. Ég átti von á að sjá eintómar sprungur og aðrar hættur en allt var vel girt af, varnarveggirnir sem búið er að reisa veita mikla öryggistilfinningu og ég fann um leið og ég keyrði inn fyrir bæjarmörkin að mér væri engin hætta búin. Andinn í Grindavíkurkirkju er líka frábær, eins og hljómburðurinn og er ég mjög spenntur að heyra útkomuna eftir upptökur dagsins. Ekki mun síðan skemma fyrir þegar þau Arney og Mikael Tamar ljá laginu raddir sínar,“ sagði Vignir Snær.