Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Uppstillingarnefnd setti oddvita framsóknar í Grindavík til hliðar
Samsett mynd: Sigurður Óli Þórleifsson til vinstri og Bryndís Gunnlaugsdóttir til hægri.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 15. apríl 2022 kl. 10:04

Uppstillingarnefnd setti oddvita framsóknar í Grindavík til hliðar

Ósáttur oddviti framsóknar í Grindavík út í kuldann

– Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Sigurður Óli Þórleifsson, fékk kaldar kveðjur hjá uppstillingarnefnd sem óskar ekki krafta hans áfram.

„Þetta kemur mér mjög á óvart og ég fæ engin svör,“ segir Sigurður Óli Þórleifsson, oddviti Framsóknarflokksins í Grindavík og forseti bæjarstjórnar, en hann verður ekki á lista flokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar í maí. 

Framsóknarflokkurinn myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokknum á kjörtímabilinu sem senn lýkur og gegndi Sigurður Óli stöðu forseta bæjarstjórnar. Þetta kom Sigurði vægast sagt í opna skjöldu, hann sagði sig úr flokknum og er vægast sagt ósáttur við vinnubrögð uppstillingarnefndar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Páll Jóhann Pálsson leitaði til mín fyrir síðustu kosningar og ég tók að mér að leiða Framsóknarflokkinn en þetta voru mín fyrstu afskipti af pólitík. Kosningin kom vel út fyrir flokkinn og við mynduðum meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og ég vek athygli á því að þetta voru fjögur mjög krefjandi ár þar sem við upplifðum fall Wow air með auknu atvinnuleysi í Grindavík, náttúruhamfarir, jarðskjálfta og eldgos í kjölfarið á því. Þá kom COVID kom við okkur eins og önnur sveitarfélög en ég tel bæjarstjórnina hafa staðið sig mjög vel við krefjandi aðstæður. Ég sem forseti bæjarstjórnar leiddi þá vinnu og tel mig hafa gert það vel. Rekstrarniðurstaða bæjarins hefur alltaf verið góð, Grindavík skorar hæst varðandi ánægju bæjarbúa svo ég get ekki betur séð en hér sé búið að vinna mjög gott starf. Ég tel vel hafa tekist upp við val fólks í nefndir á vegum bæjarins og reyndi ég að finna hæfasta fólkið í þau störf, þ.e. ég einskorðaði valið ekki endilega við fólk á listanum okkar.  Þess vegna kemur þetta mér mjög á óvart.“

Það er mjög óvenjulegt að oddviti flokks sem sömuleiðis leiðir bæjarstjórn, sé settur svona út í kuldann svo eitthvað hlýtur að hafa komið upp á?

„Ekkert sem ég veit um, ég hef enga gagnrýni fengið á mín störf en skilst að ég sé of hliðhollur Sjálfstæðisflokknum og segi já og amen við öllu því sem oddviti sjálfstæðismanna leggur á borð fyrir mig. Því vísa ég algjörlega til föðurhúsanna og það vita þau sem sem sitja með mér í bæjarstjórn að það er ekki rétt.“ 

„Ég hef líka heyrt útundan mér að það vanti meiri átök á bæjarstjórnarfundunum en ég er maður samvinnu, tel að flokkar þurfi að geta unnið saman og þá þarf að gera málamiðlanir. Auðvitað er tekist á en á endanum verðum við að komast að niðurstöðu og þar hefur samstarfsflokkurinn þurft að gefa jafn mikið eftir og ég svo ég vísa þessari já-hygli algerlega til föðurhúsanna.“

Sigurður vissi ekki annað en hann væri að fara starfa næstu fjögur árin hið minnsta við bæjarstjórnarmálin.

„Það er margt í þessu sem mér finnst bera vott um döpur vinnubrögð, t.d. tímasetningin. Eins hef ég litlar sem engar skýringar fengið en ég hef ennþá bara getað talað við einn þeirra þriggja sem eru í uppstillingarnefndinni, Pál Jóhann.  Hvorki Guðmundur Karlsson né Bryndís Gunnlaugsdóttir hafa svarað mér. Þetta með tímasetninguna er líka dapurlegt finnst mér en ég á litla möguleika á að gefa kost á mér í öðrum flokkum eða fara sjálfur fram. Eins og ég segi, það er allt frekar dapurt við þetta að mínu mati.“

Sigurður rekur MUSTAD Autoline í Grindavík en fyrirtækið sinnir línuútgerð víðsvegar um land.  Eitt helsta áhugamál Sigurðar eru ferðir á leiki í enska boltanum og hefur hann verið ófáum Íslendingunum innan handar varðandi miðakaup.  Hvað tekur við fyrst bæjarpólitíkin er kominn á ís?

„Þegar einar dyr lokast þá opna nýjar, þannig er það bara. Ég hef rekið farsælt fyrirtæki undanfarin tvö ár og mun halda þeirri uppbyggingu áfram en við þjónustum línuútgerðina, allt frá litlum handfærabátum yfir í stóru línuskipin. Ég er með umboð fyrir MUSTAD króka og beitningarvélar og sömuleiðis seljum við beitu. Stórt áhugamál hefur verið fótbolti og þá kannski helst enski boltinn. Ég var alþjóðlegur fótboltadómari í tíu ár og kynntist fjölmörgum í þeim ótalmörgu verkefnum og hef ég verið fólki innan handar við að útvega miða á leiki.“

„Sterk liðsheild“

– segir Bryndís Gunnlaugsdóttir

„Framsóknarfólk samþykkti þennan lista samhljóða og er ég sannfærð um að þetta er sterk liðsheild sem er tilbúin að vinna að því að gera góða bæ enn betri,“ segir Bryndís Gunnlaugsdóttir í uppstillingarnefnd Framsóknar í Grindavík þegar hún er spurð út í brotthvarf núverandi oddvita flokksins.

„Uppstillingarnefnd tók viðtöl við alla einstaklinga er höfðu áhuga á sæti ofarlega á lista, þ.e.a.s. 1.–8. sæti. Við tókum viðtöl við tíu einstaklinga og kom þá í ljós að fjórir aðilar höfðu áhuga á fyrsta sæti en því miður var of seint að boða til prófkjörs samkvæmt reglum Framsóknarflokksins. Í störfum undirbúningsnefndar var því rætt við Framsóknarfólk og almenna kjósendur og reynt að átta sig á því hvernig hægt væri að stilla upp sterku liði til árangurs í sveitarstjórnarkosningum. Í þeirri vinnu var meðal annars rætt við Framsóknarfólk í Grindavík sem og almenna kjósendur.

Uppstillingarnefnd lagði síðan tillögu sína fyrir félagsfund en öllum er auðvitað heimilt að koma með aðrar tillögur á félagsfundi þar sem greitt er atkvæði um listann. Á félagsfundi Framsóknar í Grindavík komu engar tillögur um breytingar á lista og var tillaga uppstillingarnefndar samþykkt samhljóða. Það er því ljóst að frambjóðendur og félagsmenn fengu tækifæri til þess að breyta tillögu uppstillinganefndar og leggja fram aðrar tillögur.“

Eins og áður segir þá er óvenjulegt að oddvita sé ýtt svona til hliðar og hann fái ekki neinar skýringar.  Bryndís hvatti blaðamann til að spyrja Sigurð hvers vegna hann hefði ekki mætt á félagsfundinn þar sem hann hefði getað óskað eftir stuðningi áfram í fyrsta sætið.  

„Eftir að hafa hitt stjórn Framsóknarfélags Grindavíkur þá sá ég í hvað stefndi og því hvarflaði ekki að mér að mæta á þann fund. Þessu máli er því bara lokið hjá mér, áfram gakk,“ segir Sigurður Óli.

Þrjú efstu sætin hjá Framsóknarflokknum í Grindavík:

Ásrún Helga Kristinsdóttir, kennari, Sverrir Auðunsson, framkvæmdastjóri, og Rannveig Jónína Guðmundsdóttir, kennari.