Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Uppsetningu Ljósnets að ljúka í Sandgerði og Garði
Fimmtudagur 15. júní 2017 kl. 06:00

Uppsetningu Ljósnets að ljúka í Sandgerði og Garði

Síðustu vikur hefur Míla unnið að uppsetningu Ljósnets til heimila í Garði og Sandgerði. Þessa dagana er Míla að ljúka síðustu tengingunum og þar með er þeim áfanga náð að öll heimili í Garði og Sandgerði verða orðin tengd Ljósneti.  Þar með geta heimilin nýtt sér háhraðanetstengingu um Ljósnetið en til þess þarf að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og panta þjónustuna.  Öll fjarskiptafyrirtæki á markaði geta boðið þjónustu til notenda um kerfi Mílu.

Ljósnet er tenging sem byggir á svokallaðri VDSL-tækni. Þetta eru algengustu háhraðanetstengingar í Evrópu og þar eru þessar tengingar gjarnan nefndar „Fiber-tengingar“. Ljósleiðari er tengdur alla leið í götuskáp/símstöð í nágrenni við heimilin og þar er settur upp búnaður sem tryggir hraða um koparendann, sem notaður er síðasta spölinn inn til notanda. Hraðinn sem fæst með Ljósneti í Garði og Sandgerði nægir auðveldlega fyrir nokkur háskerpu sjónvörp, til að vafra á netinu, spila tölvuleiki yfir netið, hlusta á tónlist og horfa á sjónvarpsveitur, allt á sama tíma, án truflana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Settur hefur verið upp VDSL búnaður í símstöðvum á öllum þéttbýlisstöðum á landinu. Sumstaðar dugir þessi búnaður til að þjóna öllum heimilum á staðnum, en þar sem vegalengdir frá símstöð til heimila eru of miklar, eru settir upp götuskápar fyrir VDSL búnaðinn og þjóna þeir hlutverki símstöðvar fyrir heimilin í nágrenni við hann.  Misjafnt er hversu marga skápa þarf að setja upp til að ná til allra heimila.  Nú þegar hefur Míla klárað að ljósnetsvæða marga þéttbýlisstaði víðsvegar um landið og er stefnt á að því verkefni verði lokið að mestu í lok þessa árs.

Ljósnet er einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að veita háhraðanetstengingar til allra og er það orðið aðgengilegt yfir 90% heimila á Íslandi. Með lagningu Ljósnetsins er að auki kominn ljósleiðari í nágrenni við öll heimili og auðveldar það framkvæmd á næsta skrefi í þróuninni sem verður að bjóða notendum ljósleiðara alla leið.