Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 14. október 1999 kl. 14:06

UPPSAGNIR HJÁ HARALDI BÖÐVARSSYNI Í SANDGERÐI: MIKIL ÓÁNÆGJA HJÁ STARFSFÓLKI

Mikill hiti er í fólki vegna uppsagna hjá H.B. í Sandgerði, en á síðustu vikum hefur níu manns verið sagt upp störfum. Bolfiskvinnslan hefur einnig verið lögð niður. Baldur Matthíasson, verkalýðsforingi í Sandgerði, segist ekki hafa neitt í höndunum varðandi umræddar uppsagnir. „Ég bíð eftir því að fólkið sem sagt var upp, hafi samband við mig eða skrái sig atvinnulaust. Hvorki ég eða aðrir í stjórn verkalýðsfélagsins hafa fengið tilkynningu um uppsögn. Mín persónulega skoðun er að þetta sé svolítið loðið, því fyrirtækinu er ekki skylt að tilkynna uppsagnir til verkalýðsfélagsins og Félagsmálaráðuneytisins, nema þeir segji a.m.k. tíu manns upp”, sagði Baldur. Hann sagði það líka vera misjafnt hvað fólk teldi vera uppsögn. „Ef fólki er boðin vinna annars staðar þá er ekki um uppsögn að ræða, en trúnaðarkona starfsmanna H.B. tilkynnti skrifstofu félagsins að fólki hefði verið boðin vinna hjá fyrirtækinu, ýmist í loðnu eða uppá Akranesi”, sagði Baldur. Hann segir að mörg störf hafi verið búin til eftir að fyrirtækin, Miðnes og H.B., sameinuðust. Loðnuþurrkun var m.a. hafin og ráðamenn fyrirtækisins hefðu lofað að þar yrði unnið allt árið. „Mér finnst ekkert benda til að þeir séu að hætta rekstri í Sandgerði því þeir eru búnir að henda óhemju miklu fé í reksturinn þar”, sagði Baldur. En hvernig ætlar verkalýðsfélagið að beita sér í málinu eins og staðan er í dag? „Fyrir liggur að ég fari á fund ráðamanna hjá H.B. en ég hef ekki náð sambandi við þá ennþá. Ég vil frekar draga lappirnar og sjá hvað er að gerast áður en ég tala við þá. Ég þarf að fá að vita ástæðu þessarar tímabundnu lokunar, hvort þeir séu að endurnýja skip eða eitthvað annað. Við skiljum t.d. ekki hvers vegna þeir ákváðu að fara með flugfiskvinnsluna uppá Akranes”, sagði Baldur Matthíasson. Einvarður Albertsson rekstrarstjóri H.B. í Sandgerði staðfesti að fyrirtækið hefðu sagt níu manns upp störfum en jafnframt gert samstarfssamning við önnur fyrirtæki, þannig að flestir starfsmennirnir sem sagt var upp væru nú komnir í aðra vinnu. Hann sagði að bolfiskvinnslan hefði verið lög niður tímabundið en til stæði að hefja hana aftur og að nóg væri að gera á netaverkstæðinu og í beitningunni. „Það eru miklar skipulagsbreytingar í gangi hjá fyrirtækinu eins og er og enginn veit nákvæmlega hver staðan er. Á næstu tveimur mánuðum mun starfsfólki fjölga”, sagði Einvarður að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024