UPPSAGNIR HJÁ AÐALVERKTUM
Íslenskir Aðalverktakir sendu um 40 starfsmönnum uppsagnarbréf í vikunni. Þeir sem fengu þessi bréf eru flestir tengdir vélarekstri í jarðvinnu á varnarsvæðinu. ,,Fyrirsjáanleg verkefnastaða í jarðvinnu og vélarekstri innan varnarsvæða er með þeim hætti að ekki kemur á óvart að til uppsagna komi”, sagði Stefán Friðfinnsson forstjóri Íslenskra Aðalverktaka. ,,Á haustin fækkar jarðvinnuverkefnum og öðru sem kallar á svo stórar vélar. Reyndar er eitthvað af fólki frá okkur í verkefnum við Vatnsfellsvirkjun við Þórisós og sjaldan verið fleiri í jarðvinnu hjá ÍAV samsteypunni en nú. Undanfarið höfum við auglýst eftir fólki til að starfa við virkjunina og vel hefur gengið að ráða fólk.”