Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 5. nóvember 2003 kl. 12:32

Uppsagnir dregnar til baka

Uppsagnir 90 starfsmanna Varnarliðsins sem sagt var upp störfum í síðustu viku hafa verið dregnar til baka og hefur varnarliðið ákveðið að eiga samráð við verkalýðsfélög um málið. Í fréttatilkynningu frá varnarliðinu segir að yfirstjórn Flotastöðvarinnar telji að uppsagnirnar sem gripið var til í síðustu viku hafi verið í fullu samræmi við íslensk lög og venjur og er tekið fram að slíkar aðgerðir verði að vera hafnar yfir grun um ólögmæti og geta talist sanngjörn, og þess vegna sé gripið til þessara ráðstafana.

Fréttatilkynning frá Varnarliðinu:

„Að ósk Alþýðusambands Íslands vegna uppsagna starfsmanna mun Flotastöð Varnarliðsins taka upp frekari viðræður við verkalýðsfélög um ásættanlegt fyrirkomulag við niðurskurð á rekstrarfé og áhrif á félagsmenn þeirra. Yfirstjórn Flotastöðvarinnar telur að uppsagnir þær sem gripið var til í síðastliðinni viku hafi verið í fullu samræmi við íslensk lög og venjur. Þeim var ætlað að takmarka sem mest áhrif á heildarstarfsmannafjölda stöðvarinnar. Jafnframt er ljóst að svo afdrifarík ákvörðun fyrir afkomu starfsmanna verður að vera hafin yfir grun um ólögmæti og geta talist sanngjörn. Flotastöð Varnarliðsins hefur því ákveðið að draga til baka uppsagnir sem sendar voru 90 starfsmönnum hinn 28. október síðastliðinn og eiga frekara samráð við verkalýðsfélögin um málið. Markmiðið með því að grípa svo snemma til uppsagna starfsmanna var að takmarka sem mest fjölda uppsagna þannig að þær bitnuðu ekki á skyldum Flotastöðvarinnar til að halda uppi fullum rekstri Keflavíkurflugvallar og skyldum Varnarliðsins vegna öryggis landsins. Skal í því sambandi meðal annars nefna rekstur flugvallarslökkviliðs, hálkuvarnir á flugbrautum, viðhald flugleiðsögutækja og flugvallarmannvirkja auk annarrar öryggisþjónustu. Flotastöð Varnarliðsins stendur líkt og aðrar bækistöðvar Bandaríkjaflota frammi fyrir miklum niðurskurði rekstrarfjár. Þótt launakostnaður sé yfir 70% af rekstrarfé stöðvarinnar, verður nærri tveimur þriðju hlutum niðurskurðarins mætt með öðrum ráðstöfunum t.d. rekstrarsparnaði á öðrum sviðum og frestun viðhaldsframkvæmda. Stjórnendur flotastöðvarinnar eru reiðubúnir að ræða allar hugmyndir ASÍ varðandi það hvernig mæta megi fjárhagsvanda stöðvarinnar. Þó er ljóst að leiði slíkt samráð ekki til þess að aðrar sparnaðarleiðir finnist geta tafir á uppsögnum starfsmanna þýtt að grípa verði til enn fleiri uppsagna svo mæta megi niðurskurði á rekstrarfé.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024