Upplýsingavefur um loftlínur og jarðstrengi
Landsnet hefur opnað upplýsingavef um háspennuloftlínur og jarðstrengi. Markmiðið er að þar geti allir sem áhuga hafa fundið á einum stað helstu staðreyndir um kosti og galla lína og strengja, stefnumótun í þessum efnum, bæði heima og erlendis, sem og fjölmiðlaumfjöllun hérlendis um þetta umdeilda málefni.
Samfara vaxandi umhverfismeðvitund Íslendinga hafa umræður aukist á síðustu árum um notkun jarðstrengja í stað loftlína til að minnka sjónræn áhrif raforkuflutningskerfisins en stefnumótandi ákvarðanir hafa ekki verið teknar í þessum efnum hérlendis, eins og t.d. í Noregi. Landsnet hefur hins vegar kallað eftir slíkri stefnumótun, nú síðast í tengslum við umræðu um jarðstrengjalögn í gegnum sveitarfélagið Voga. Lagning jarðstrengja á hárri spennu eru enn mun dýrari framkvæmd en lagning háspennulína. Forsvarsmenn Landsnets telja því ekki réttlætanlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir – sem hefðu í för með sér hækkun á raforkuflutningum til bæði fyrirtækja og almennings – nema að undangenginni stefnumörkun þar um af hálfu yfirvalda.
Þar til stefnumörkun stjórnvalda liggur fyrir hefur fyrirtækið markað sér þá vinnureglu að kanna ávallt bæði mögulegar jarðstrengja- og línulausnir, með tilliti til kostnaðar og samfélagslegra áhrifa. Til að meta þessa hluti frekar hefur Landsnet lagt lagt lið rannsóknum á samfélagslegum kostnaði raforkulína og m.a. stutt fjárhagslega bæði verkefni í hagfræðideild Háskóla Íslands og rannsóknir á vegum Stofnunar Sæmundar fróða.
Upplýsingar og samanburður
Vefurinn er vistaður á heimasíðu Landsnets; www.landsnet.is/linurogstrengir og helstu efnisflokkar hans eru:
Línur og strengir: Yfirlit yfir stöðuna í dag og ýmis konar samanburður.
Tæknin: Samaburður á mismunandi tæknilegum eiginleikum lína og strengja.
Umhverfið: Samanburður á mismunandi umhverfislegum áhrifum lína og strengja.
Kostnaður: Samanburður á kostnaði við strenglögn annars vegar og loftlínur hins vegar og stöðu mála á Íslandi annars vegar og í samanburði við ESB lönd.
Ísland og útlönd: Samantekt á tenglum hérlendis og víða erlendis varðandi stefnumótun.
Fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi um loftlínur og jarðstrengi.
Á vefnum er einnig hægt að nálgast ýmsar skýrslur og önnur gögn, koma með ábendingar og senda fyrirspurnir og leita frekari svara ef þess gerist þörf með því að senda póst á netfangið [email protected]