Upplýsingamiðstöð við Bláa lónið
Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, við Bláa lónið, verður formlega opnuð á baðstaðnum við Bláa lónið á morgun, miðvikudaginn 7. júní kl 16:00. Rekstur miðstöðvarinnar er samstarfsverkefni Bláa lónsins hf. og Grindavíkurbæjar. Hún verður starfrækt í þrjá mánuði í sumar og er opnunartíminn alla daga vikunnar frá kl. 11:00-18:00. Á upplýsingamiðstöðinni geta ferðamenn nálgast upplýsingar og kynningarefni um ferðaþjónustu á Suðurnesjum. „Okkar markmið er að hvetja gesti Bláa lónsins til að koma við á fleiri stöðum á Reykjanesinu. Nú þegar koma um 60% þeirra ferðamanna sem koma til Ísland í Bláa lónið, enda einstök náttúruperla“, segir Anna Gunnhildur Sverrisdóttir, sem hefur yfirumsjón með rekstri miðstöðvarinnar. „Þetta er því kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu til að koma á framfæri bæklingum og öðru kynningarefni“, segir Anna Gunnhildur, enn fremur. Anna Gunnhildur mun flytja ávarp við opnunina, ásamt Einari Njálssyni, bæjarstjóra Grindavíkur og Magnúsi Oddssyni, ferðamálastjóra.