Upplýsingafundur vegna áhrifa flóttafólks á bæjarbraginn
Áætlað er að halda sérstakan upplýsingafund á næstu vikum fyrir íbúa Reykjanesbæjar um áhrif flóttafólks á bæjarbraginn og umsóknir um alþjóðlega vernd. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra þegar hann mælti fyrir fjárheimildum Reykjanesbæjar, og þriggja ára áætlun 2024-2026 í fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi 15. nóvember.
„Það er varla hægt að fjalla um horfur í starfsemi Reykjanesbæjar án þess að minnast á áhrif flóttafólks á bæjarbraginn en Reykjanesbær er eitt örfárra sveitarfélaga sem hefur í 18 ár, eða síðan árið 2004, tekið á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd.“ Þá segir hann það ljóst að verkefnið sé samfélagslega mikilvægt og þakkar starfsfólki sem kemur að því fyrir þeirra framlag. „Þetta mikilvæga samfélagsverkefni reynir verulega á allt kerfið og samfélagið í heild. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka öllu starfsfólki sem að þessu verkefni kemur víðsvegar í kerfinu fyrir þeirra mikla framlag og aðlögunarhæfni.“