Upphaf nýrra tíma í útgerðarsögu Reykjanesbæjar
Nýr togari kom til Reykjanesbæjar sl. fimmtudag þegar Brettingur KE 50 kom til hafnar í Njarðvíkurhöfn. Úgerðarfélag Brettings er Gotti ehf. en skipsstjóri er Magni Jóhannsson.
Útgerð Brettings KE vonar að með komu skipsins til Reykjanesbæjar séu að hefjast nýir tímar í úgerðarsögunni í Reykjanesbæ og tilkoma skipsins sé vonandi vísir að þlví að atvinnulífið taki að blómstra með vorinu.
Brettingur mun hefja veiðar í byrjun maí nk. en í áhöfn skipsins verða 15 manns og vonast Magni Jóhannsson skipsstjóri til þess að þeir verði allir af Suðurnesjum.
Brettingur KE 50 er er 57 metra langt skip og 9,5 metra breitt með 2.400 hestafla vél.
Skipið er heilfrystitogari, sem þýðir að hægt er að heilfrysta aflann um borð. Hann er því ekki fullvinnsluskip eins og nýjustu togararnir í dag, en heilfrysting gefur möguleika á lengri veiðiferðum.
Skipið hét Brettingur NS 50 og var smíðað í Japan árið 1973. Skipið var lengt árið 1988 og jafnframt skipt um aðalvél. Það var í eigu Tanga hf á Vopnafirði til ársins 2005, þá var það sameinað HB Granda. Árið 2007 var skipið selt úr landi en er nú að koma til Reykjanesbæjar frá Englandi.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson