„Uppeldi til ábyrgðar“ í Grunnskóla Grindavíkur
Grunnskóli Grindavíkur hefur vakið athygli undanfarin misseri fyrir gott starf. Árangur nemenda hefur farið vaxandi og almenn ánægja ríkt með skólastarfið. Í vetur hefur starfsfólk annara skóla, sérstaklega kennarar og skólastjórnendur, heimsótt skólann til þess að kynna sér starf og stefnu skólans.
„Já, það er rétt, hingað hefur komið starfsfólk annarra skóla í heimsókn til þess að kynna sér hvað við erum að gera. Okkur hefur gengið vel að undanförnu og andinn í skólanum er góður. Á þessu skólaári höfum við unnið að því að tileinka okkur ákveðna hugmyndafræði, uppbyggingastefnuna, eða uppeldi til ábyrgðar. Þessi stefna miðar að því að efla sjálfsstjórn og sjálfsaga. Henni er ætlað að kenna nemendum að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum og leggja rækt við þau lífsgildi sem samfélagið hefur sett sér. Við teljum að nú þegar sé þessi vinna farin að skila sér í skólastarfin,“ sagði Gunnlaugur Dan Ólafsson skólastjóri.
Foreldrafélag Grunnskólans mun mánudaginn 18. apríl kl. 20.00, standa fyrir kynningu á uppbyggingarstefnunni fyrir foreldra. Þar mun Páll Ólafsson frá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar kynna þessa hugmyndafræði. Páll gerir þetta á mjög sérstakan og áhugaverðan hátt og eru foreldrar hvattir til þess að mæta.
VF-mynd/Þorsteinn