Uppbyggingarsjóður Suðurnesja kynntur í Krossmóa
-Verkefnastjóri Heklunnar segir mikilvægt að hvetja sem flesta til að nýta sér sjóðinn
Uppbyggingarsjóður Suðurnesja var kynntur á opnum fræðslufundi í Krossmóa fyrr í dag, en nú er hægt að sækja um styrki í sjóðnum fyrir árið 2018. Markmið Uppbyggingarsjóðs er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum.
Björk Guðjónsdóttir fer yfir umsóknarferli sjóðsins.
Björk Guðjónsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðsins, kynnti áherslur sjóðsins og helstu atriði sem hafa þarf í huga við gerð styrkumsókna. Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica, sagði frá sinni reynslu er varðar styrkumsóknir, en fyrirtækið hefur hlotið ýmsa styrki síðustu ár, þar á meðan úr Uppbyggingarsjóði.
Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica.
Dagný Maggýjar, verkefnastjóri Heklunnar, Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, segir mikilvægt að hvetja sem flesta til að nýta sér þann möguleika sem Uppbyggingarsjóðurinn er. „Þarna voru bæði nýir og reyndari umsækjendur, en hægt er að sækja oft um styrki fyrir mismunandi þætti verkefnis. Mætingin í dag var mög góð.“
Umsóknarfrestur Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er til 9. nóvember en sjóðurinn hefur tekið í notkun nýtt rafrænt eyðublað sem auðveldar styrkumsóknir til muna.