Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Uppbygging á íþróttasvæði UMFG fyrir 800 milljónir
Laugardagur 9. febrúar 2013 kl. 13:30

Uppbygging á íþróttasvæði UMFG fyrir 800 milljónir

Fulltrúar aðalstjórnar UMFG lýsa yfir almennri ánægju með fyrirhugaðar framkvæmdir á íþróttasvæðinu í Grindavík. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á íþróttasvæðinu fyrir um 700-800 milljónir króna en þessi uppbygging mun umbylta starfi UMFG til framtíðar. Fulltrúar UMFG mættu á bæjarráðsfund á þriðjudag og fóru yfir málið.

Bæjarráð bendir á að nú er í fyrsta sinn mörkuð stefna og framkvæmdaáætlun til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Samþykkt hefur verið tímasett og fjármögnuð áætlun um uppbyggingu á íþróttasvæðinu næstu fjögur ár. Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn verði 700-800 milljónir króna. Þessi uppbygging er til að mæta brýnustu þörf þeirra er nýta íþróttasvæðið (grunnskóli, deildir UMFG, aðrir iðkendur, almenningur og starfsfólk). Þeirri uppbyggingu verður lokið 2016.

Jafnframt er unnið að deiliskipulagi svæðisins sem veitir svigrúm fyrir frekari uppbyggingu til lengri framtíðar. Auk þess er nú unnið að frumhönnun sundlaugarsvæðis, en ljóst er að nauðsynlegt er að hefjast handa við endurbætur á sundlaugarsvæði innan fárra ára.

Farið var yfir athugasemdir frá knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild varðandi fyrirhugaða uppbyggingu. Knattspyrnudeild fer fram á að hafa sína aðstöðu við knattspyrnuhúsið Hópið og körfuknattleiksdeildin óskaði eftir því að byggt yrði nýtt íþróttahús sem hefði þrjá æfingasali og einnig íþróttavöll í löglegri stærð. Fram kemur í bókun frá meirihluta bæjarráðs að ekki sé unnt að verða við þessum óskum. Það er stefna bæjaryfirvalda að allar deildir verði með sameiginlega aðstöðu á íþróttasvæðinu. Einnig telur bæjarráð ekki ráðlegt að byggja nýtt íþróttahús vegna kostnaðar við uppbyggingu og rekstur. Þó er tekið fram að í framtíðinni skapast mjög líklega þörf á því að byggja nýtt íþróttahús.

Bæjarráð samþykkti að halda áfram uppbyggingu á íþróttasvæðinu í samræmi við tillögu nefndar um skipulag og uppbyggingu mannvirkja til næstu ára, sem kynnt var í janúar 2012.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024