Uppblásinn hvalreki á Garðskaga
Á meðan flestra augu eru á skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls þá þustu Garðmenn út á Garðskaga undir kvöld í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, þegar þar rak á fjörur belgmikinn hval.
Sjónarvottar höfðu fyrst veitt hvalnum athygli þar sem hann flaut á miklum hraða eins og korktappi í Garðsjónum. Lögreglan mætti á staðinn ásamt björgunarsveit. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafa viðeigandi stofnanir fengið tilkynningu um hvalrekann.
Lesandi Víkurfrétta óð út að dýrinu þar sem þar liggur á Lambarifi fyrr í dag. Samkvæmt mælingum er dýrið 16 metra langt og hæðin á því var um þrír metrar. Hvalurinn, sem sagður er vera hnúfubakur, er mikið útblásinn og því byrjaður að rotna. Hann gæti því sprungið eða losað sig við gasið með öðrum hætti.
Leiðinlegt veður er núna á Garðskaga og líklegt að hræið eigi eftir að fara af stað á flóði síðar í dag og reka eitthvað annað.