Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Unnur Brá sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna
Unnur Brá tók fyrst sæti á Alþingi árið 2009. Hún er formaður allsherjar- og menntamálanefndar þingsins, situr í velferðarnefnd og er 1. varaforseti Vestnorræna ráðsins.
Miðvikudagur 10. ágúst 2016 kl. 12:23

Unnur Brá sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í komandi prófkjöri. Unnur Brá hefur setið á Alþingi frá árinu 2009.

„Undanfarin sjö ár hef ég notið þess heiðurs að vera fulltrúi Suðurkjördæmis á Alþingi og sækist eftir að fá umboð frá flokkssystkinum mínum til þess að halda áfram því starfi sem ég hef sinnt og óska eftir endurnýjuðu kjöri í 2. sæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Ég hef gefið alla mína krafta í starf mitt sem alþingismaður og vonast til þess að fá tækifæri til þess að vinna áfram að þeim mikilvægu málefnum sem brenna á íbúum svæðisins,“ segir Unnur í fréttatilkynningu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leiðarljós mín í því pólitíska starfi sem ég hef helgað krafta mína eru meðal annars:

* Að Ísland sé land jafnra tækifæra, þar sem allir eigi möguleika til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
* Að Ísland sé opið og lýðræðislegt samfélag þar sem allir geta komið hugsjónum sínum á framfæri og barist fyrir þeim.
* Að á Íslandi njóti allir þeirra mannréttinda að vera metnir á eigin verðleikum; óháð þjóðfélagsstöðu, skoðunum, kyni, efnahag eða uppruna.
* Að á Íslandi hafi einstaklingurinn svigrúm til þess að haga lífi sínu eftir eigin höfði, án óþarfrar afskiptasemi hins opinbera og án óhóflegrar skattlagningar.


Ísland á að vera draumaland ungs fólks. Á því kjörtímabili sem nú er senn á enda höfum við tekið mörg farsæl skref í rétta átt, unnið ötullega að því að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika sem er forsenda velmegunar. Mikilvægustu verkefnin framundan eru uppbygging heilbrigðiskerfisins, skilvirkara húsnæðiskerfi, losun gjaldeyrishafta, fullt jafnrétti,  frekari einföldun skattkerfisins og afnám tolla.

Aukið frelsi einstaklinga og atvinnulífs er besta leiðin að bættum lífskjörum. Aðeins með vexti getum við aukið velferð samfélagsins. Það á að vera grundvallarstef í öllum okkar störfum að hagsmunir atvinnulífsins og heimilanna fari saman. Til þess að auka hagsæld þurfa einstaklingar og fyrirtæki að búa við frelsi til þess að vaxa, dafna og sækja á nýja markaði bæði innanlands og alþjóðlega.“