Unnið af kappi við varnargarða við Grindavík
Unnið er í kapphlaupi við tímann við gerð varnargarða ofan við byggðina í Grindavík. Í fyrsta áfanga verkefnisins er tveggja kílómetra langur varnargarður sem verður þriggja til fimm metra hár. Áætlað er að ljúka við þennan hluta varnargarðsins eftir um hálfan mánuð.
Byrjað var á varnargarðinum austan Grindavíkurvegar en nú eru tæki verktakanna einnig komin vestur fyrir Grindavíkurveg og er byrjað á varnargörðum þar líka.
Búist er við eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni á allra næstu sólarhringum. Renni hraun að varnargörðunum er gert ráð fyrir að verktakar geti ýtt upp efni í garðana hlémegin við þá.
Meðfylgjandi myndir tók Sigurbjörn Daði Dagbjartsson við varnargarðavinnuna í dag.