Unnið að krafti við umbreytingu rafdreifikerfis
Starfsmenn Íslenskra Aðalverktaka hafa unnið í allt sumar að umbreytingu rafdreifikerfis á Vallarheiði. Skurðir hafa verið grafnir víðsvegar um Vallarheiði fyrir nýjar stofnæðar, auk þess sem nýir stofnar hafa verið dregnir í gegnum lagnabrunna sem er að finna víða um Vallarheiði. Raf- og símalagnir á Vallarheiði eru að miklu leiti í rörum og stokkum og kemur það í veg fyrir að víða þurfi að grafa í sundur.
Samkvæmt lögum nr. 135/2007 skal umbreytingu rafdreifikerfis á umráðasvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, svo það samræmist íslenskum kröfum, vera að fullu lokið eigi síðar en 1. október 2010.
Í fyrsta áfanga umbreytingar rafdreifikerfisins var skipt um raflagnir í iðnaðarsvæðinu á Vallarheiði, en einnig var skipt um stofna í hluta af íbúðasvæðinu. Gert er ráð fyrir að eldra dreifikerfi á iðnaðarsvæði verði aftengt í nóvember nk.
Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar vann að undirbúningi og hönnun verksins ásamt Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Hitaveitu Suðurnesja hf. (HS) en HS er eigandi að dreifikerfinu á Vallarheiði. Framkvæmd verksins er í höndum Íslenskra Aðalverktaka en meðfylgjandi ljósmynd var tekin þegar unnið var að því að draga nýjar lagir í lagnabrunn við ofanverða Grænásbraut í svokölluðu 600-hverfi á Vallarheiði.
Ljósmynd: Hilmar Bragi