Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Unnið að heildstæðri úrlausn á vanda einstaklingsins
Sunnudagur 18. maí 2008 kl. 13:33

Unnið að heildstæðri úrlausn á vanda einstaklingsins

Stofnsamningur að Samvinnu - starfsendurhæfingu á Suðurnesjum, var undirritaður nú fyrir helgi. Markmið verkefnisins er að endurhæfa þátttakendur til vinnu, að stuðla að auknum lífsgæðum þátttakenda, að stuðla að auknum lífsgæðum fjölskyldu hans, að þátttakandi fari í atvinnu að endurhæfingu lokinni og/eða í áframhaldandi nám.

Starfsendurhæfing á Suðurnesjum á að bjóða upp á heildstæða úrlausn á vanda hvers þátttakanda eins og kostur er á í samvinnu við félags- og heilbrigðisyfirvöld og mennta og fræðslustofnanir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Þátttakandinn á að vera sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi þar sem hann kemur með virkum hætti að gerð sinnar endurhæfingaráætlunar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að verkefninu standa sveitarfélögin á Suðurnesjum, MSS, VSFK, FIT, Lífeyrissjóðurinn Festa, HSS, FS og Vinnumálastofnun.

„Starfsendurhæfing eins og við erum að stofna hér gengur út á að vinna á heildrænan hátt með einstaklinginn, út frá félagslegri, líkamlegri og sálrænni stöðu auk þess sem þátttakendur geta nýtt sér námstilboð. Stofnanir sem tengjast einstaklingnum vinna saman að því að styðja hann í að ná settu marki. Nám sem boðið er uppá er einingabært á framhaldsskólastigi og getur einstaklingurinn haldið áfram skólagöngu ef hann kýs svo. Einnig gerum við ráð fyrir því að það séu ekki allir einstaklingar tilbúnir til að fara í einingarbært nám og þarf því líka að geta boðið upp á fornám fyrir þá. Hér þarf því að huga að einstaklingsmiðuðu námi. Gera þarf ráð fyrir að einstaklingar geti átt við lestrar- og skriftarerfiðleika að stríða eða aðra námserfiðleika,“ sagði Guðjónína Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri MSS, í inngangi sínum við undirskrift samningsins.

Í máli hennar kom einnig fram að rannsóknir sýndu að yfir 70% sem fara í náms- og starfsendurhæfingu skiluðu sér í nám eða störf að því loknu. Það væri því til mikils að vinna með endurhæfingu og allir aðilar sem græddu á því, hvort heldur lífeyrissjóðirnir, sjúkrasjóðir stéttarfélaganna, samfélagið og einstaklingurinn sjálfur.


VF-mynd/elg: Bæjarstjórar allra sveitarfélaganna og formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja voru meðal aðila sem undirrituðu stofnsamninginn.