United Silicon veitt greiðslustöðvun til lok janúar
United Silicon fékk áframhaldandi greiðslustöðvun til 22. janúar næstkomandi, en Héraðsdómur Reykjanes samþykkti þá beiðni í dag.
Upphaflega fékk stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar um miðjan ágúst. Í september var óskað eftir framlengingu á greiðslustöðvun félagsins og fékkst frestur til 4. desember. Á greiðslustöðvunartímabilinu hefur mikil vinna verið lögð í nauðsynlegar greiningar á starfsemi United Silicon og farið yfir leiðir til úrbóta, auk þess sem unnið hefur verið að endurbótum á verksmiðjunni eftir föngum á þeim atriðum sem eftirlitsyfirvöld hafa gert athugasemdir við. Arion banki hefur fjármagnað þá vinnu sem og aðra starfsemi félagsins.
Niðurstaða tæknilegra úttekta felur í sér umtalsverða fjárfestingaþörf í starfsemi verksmiðjunnar. Þá hefur bókhaldsrannsókn leitt í ljós meint fjármunabrot fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Meint brot hafa verið kærð til héraðssaksóknara og eru þau í rannsókn þar.
Um sextíu manns eru að störfum hjá verksmiðjunni en frá því framleiðsla var stöðvuð í byrjun september hefur starfsfólkið meðal annars sinnt viðhaldi og tíminn verið nýttur í að styrkja það í störfum.
Greiðslustöðvunin sem Héraðsdómur Reykjaness samþykkti í dag gildir til 22. janúar.