United Silicon fær frest til miðnættis á mánudag
Umhverfisstofnun hefur veitt United Silicon frest til miðnættis á mánudag til að skila athugasemdum við þau áform að starfsemi verksmiðjunnar verði stöðvuð. Síðasta þriðjudag, þann 18. apríl, sendi Umhverfisstofnun fyrirtækinu bréf þess efnis að vegna lyktarmengunar áformaði stofnunin að stöðva reksturinn og hafði fyrirtækið frest til hádegis í dag til að skila inn athugasemdum við þau áform.
Að sögn Kristínar Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar, höfðu forsvarsmenn United Silicon óskað eftir fundi með fulltrúum stofnunarinnar áður en athugasemdunum yrði skilað. „Við hjá Umhverfisstofnun náðum ekki að koma fundinum á fyrr en í dag,“ segir hún. Á fundinn í dag eru einnig væntanlegir fulltrúar frá Matís sem unnið hafa að rannsóknum á sýnum úr verksmiðjunni og fulltrúar frá Multiconsult sem eru ráðgjafar United Silicon.
Fresturinn sem veittur var í dag mun ekki breyta neinu um starfsemi verksmiðjunnar sem legið hefur niðri undanfarna daga eftir að eldur braust þar út aðfararnótt þriðjudags.