Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

United Silicon fær 50% afslátt af fasteignagjöldum
Samkvæmt samningnum skal ekki leggja skatta á United Silicon vegna megnunar nema slíkir skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki hér á landi. VF-mynd/hilmarbragi
Föstudagur 12. maí 2017 kl. 06:00

United Silicon fær 50% afslátt af fasteignagjöldum

- Í fjárfestingarsamningi fyrrum ríkisstjórnar við United Silicon er kveðið á um ívilnanir frá ríkinu og Reykjanesbæ - Ákvæði um uppsögn samnings sé starfsemin verulega frábrugðin því sem áætlað var

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi, lagði í síðustu viku fram fyrirspurn á Alþingi um það hve háa ríkisaðstoð United Silicon hafi fengið á grundvelli fjárfestingarsamnings við ríkið. Fyrirspurninni beindi þingmaðurinn til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar og hefur ráðherrann 15 virka daga til að svara.

Í fjárfestingarsamningi United Silicon og þáverandi ríkisstjórnar Íslands, sem undirritaður var 9. apríl 2014, er ákvæði um að honum sé hægt að segja upp innan fimm ára frá gildistöku verði fjárfestingarverkefnið ekki að veruleika eða ef starfsemin verði verulega frábrugðin því fjárfestingarverkefni sem samningurinn miði við. Í samningnum eru ýmsar ívilnanir til handa United Silicon, bæði frá ríkinu og Reykjanesbæ. Hvað Reykjanesbæ varðar, þá greiðir United Silicon 50 prósent lægri fasteignaskatt en áskilið hámarkshlutfall. Hlutfall gatnagerðargjalda er 30 prósentum lægra en gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í samningnum kemur fram að hámark ríkisaðstoðar sé 484,8 milljónir íslenskra króna að núvirði á þeim tíma, í apríl 2014. Meðal þess sem í ríkisaðstoðinni felst er að almennt tryggingagjald skuli vera 50 prósentum lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingargjald á samningstímanum. Þá er fyrirtækið undanþegið aðflutningsgjöldum vegna innflutnings eða innkaupa innanlands vegna kaupa á byggingarefnum, hráefnum og öllum öðrum framleiðsluaðföngum, sem nauðsynleg eru til reksturs verksmiðjunnar.

Samkvæmt samningnum skal ekki leggja á United Silicon skatta eða gjöld er varða útblástur eða mengun eða losun lofttegunda eða urðun úrgangs, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur félög á Íslandi. Þá segir í inngangi samningsins að ríkisstjórnin vilji greiða fyrir því að verkefnið verði að veruleika þar sem niðurstöður sýni, eftir tilhlýðilega könnun á hagkvæmni verkefnisins við þáverandi og fyrirsjáanlegar efnahagsaðstæður, að það geti haft jákvæð samfélags- og efnahagsleg áhrif fyrir þjóðarbúið og þá sérstaklega fyrir Reykjanesbæ og sveitarfélögin í kring.