Ungt fólk sækir í störf tengd sjávarútvegi
Íslenski sjávarklasinn réð nýverið til sín 12 sumastarfsmenn til að sinna ýmsum haftengdum verkefnum sem kasinn fæst við í sumar. Hluti þessara sumarstarfsmanna mun starfa hér á Suðurnesjum. Hópurinn er afar fjölbreyttur og með víðtæka reynslu úr námi sínu sem og atvinnulífinu. Þetta er annað árið í röð sem klasinn ræður til sín sumarstarfsfólk en síðastliðið sumar voru ráðnir um 10 sumarstarfsmenn.
Verkefnin sem unga fólkið mun kljást við í sumar eru viðskiptaáætlanir, ensímrannsóknir, sölu- og markaðsmál aukaafurða úr fiski, hönnun, kortlagning haftengdrar starfsemi á Höfn í Hornafirði, kortlagning líftæknifyrirtækja, Græna fiskiskipið, Green Marine Technology, efling klasasamstarfs á Suðurnesjum, hagfræðirannsóknir, menntamál og margt fleira. Það verður því nóg um að vera við Reykjavíkurhöfn og í Saltfisksetrinu í Grindavík þar sem hluti af hópnum mun starfa og sinna verkefnum á vegum Codlands.
Alls bárust tæplega 130 umsóknir fyrir sumarstörfin í ár og því ljóst að unga fólkið sér tækifærin sem liggja í haftengdum greinum. Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum um borð í Dröfn RE 35 með Hús Sjávarklasans í bakgrunni við Reykjavíkurhöfn.
Á myndinni eru: Haukur Már Gestsson, Friðrik Björnsson, Sveinn Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Brynja Björg Halldórsdóttir, Saga Huld Helgadóttir, Heiðdís Skarphéðinsdóttir, Bjarki Vigfússon, Gunnar Sandholt, Margrét Albertsdóttir, Viðar Hafsteinsson, Kristín Ýr Pétursdóttir, Arnar Jónsson og Páll Ásgeir Torfason.