Ungt fólk án atvinnu á Suðurnesjum
Ungt fólk er stór hluti þeirra sem eru á atvinnuleysiskrá á Suðurnesjum en þar er ástand í atvinnumálum verst á landinu og menntunarstig lægst. Þetta kemur fram í Suðurnesjaskýrslu Velferðarvaktarinnar sem kom út í sumar. Þetta kemur fram í fréttaskýringu RÚV um skýrsluna.
Skýrsla Velferðarvaktarinnar er unnin af samstarfshópi um velferð á Suðurnesjum og nær yfir sveitarfélögin fimm Voga, Grindavík, Reykjanesbæ, Garð og Sandgerði.
Þar kemur fram að eftir að draga fór úr útgerð og fiskvinnslu á Suðurnesjum tók atvinnuleysi að aukast og eftir að bandaríski herinn fór árið 2006 jókst það enn frekar.
Auk þess varð svæðið illa úti í efnahagshruninu. Atvinnuleysi er langmest á Suðurnesjum eða um 10,4% í ágúst en 6.7% á landinu öllu.
Það vekur athygli að 40% af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum eru yngri en þrjátíu ára og 82% þeirra eru einungis með grunnskólapróf, en á landinu öllu er það hlutfall 66%.
Í skýrslunni segir að lágt menntunarstig megi að einhverju leyti rekja til þess að fólk fékk auðveldlega vinnu að loknu grunnnámi, meðal annars hjá varnarliðinu.
Atvinnuleysi meðal ungs fólks sé mikið áhyggjuefni og hefur Vinnumálastofnun boðið upp á ýmis úrræði sem heimili atvinnulausum einstaklingum að fara í nám í eina önn án þess að atvinnleysibætur skerðist. 6,6% landsmanna búa á Suðurnesjum.