Ungmenni undir aldri sækja í að leigja sali undir samkvæmi
„Að undanförnu hefur borið á því að ungmenni undir aldri hafi sótt í að leigja samkomusali undir samkvæmi. Lögreglan á Suðurnesjum hefur jafnvel þurft að hafa afskipti af slíku samkvæmi,“ segir í fundargerð frístunda- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Voga, sem tók málið til afgreiðslu á dögunum.
Samsuð, samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, hefur nú sent ábendingu til umsjónarmanna slíkra samkomusala þar sem þeir eru minntir á þær reglur sem gilda um slíka starfsemi og þá ábyrgð sem henni fylgir.
Í afgreiðslu frístunda- og menningarnefndar Voga segir að nefndin fagni því að Samsuð láti þessi mál sig varða.