Ungmenni taka þátt í alþjóðlegri rústabjörgunaræfingu í Rússlandi
Ungmenni frá unglingadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar taka nú þátt í alþjóðlegri rústabjörgunaræfingu sem nú stendur yfir í Rússlandi en alls taka 11 þjóðir þátt.
Æfingin fer fram í borginni Noginsk og kallast USAR eða „Urban Search and Rescue basic training for youngsters“.
Í hópnum eru ungmenni frá Grindavík og Reykjanesbæ ásamt fararstjórum en meðal verkefna sem þátttakendur þurfa að leysa eru auk rústabjörgunar aðstoð við slasaða einstaklinga og fjallabjörgun. Æfingunni lýkur á stórri 14 tíma rústabjörgunaræfingu þar sem allar þjóðirnar vinna saman.
Æfingar sem þessar skila miklu í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem þátttakendur öðlast mikla reynslu. Á meðfylgjandi myndum má sjá hópinn og nokkur af þeim verkefnum sem hann tókst á við fyrstu dagana.