Ungmenni stökkva í sjóinn vegna áskorunar á facebook
„Best að hafa áætlun ef eitthvað fer úrskeiðis“
Mikið hefur borið á því að ungmenni séu að stinga sér til sunds við bryggjur Suðurnesja að undanförnu. Reyndar tíðkast þetta víða um land en ástæðan ku vera áskorun á facebook þar sem fólk er hvatt til þess að stökkva í sjóinn, ellegar þurfa að sæta refsingu í staðinn t.d. með því að borga áskoranda pítsu eða bjór.
Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík hefur nokkrar áhyggjur af því að ungmennin séu að stökkva án eftirlits í sjóinn. Hann sendi heimasíðu bæjarsins línu þar sem hann brýnir fyrir ungu fólki að fara með gát.
„Ég hef mestar áhyggjur af hættunni á því að börnin fái krampa. Ég reyni að brýna fyrir þeim að synda ekki á milli bryggja og vera ekki lengur í vatninu en þrjár mínútur í mesta lagi vegna hættu á ofkælingu. Ef þau fá krampa þá þarf ekki að spyrja að leikslokum. Ég legg til að við öll, foreldrar og skólar, brýnum fyrir þeim að fara ekki langt frá bryggjum og alls ekki reyna að synda á milli þeirra og helst fara beint upp úr sjónum. Best væri að hafa einhverja áætlun um hvernig hægt er að fá hjálp ef eitthvað fer úrskeiðis. Ekki bara láta sig gossa og synda af stað án þess að vera búinn að gera ráðstafanir. Besti farvegurinn fyrir svona ævintýramennsku er auðvitað að fara í unglingadeild björgunarsveitarinnar. Þar fara fram allskonar skemmtilegar æfingar í sjó en undir eftirliti,“ segir hafnarstjórinn.