Ungmenni funduðu með bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Ungmenni í Reykjanesbæ sem skipa ungmennaráð Reykjanesbæjar áttu fund með bæjarstjórn Reykjanesbæjar í síðustu viku. Ungmennaráð fundar að jafnaði tvisvar á ári með bæjarstjórninni. Fundurinn í síðustu viku átti að fara fram fyrir áramót en var frestað þar sem miklar annir voru hjá bæjaryfirvöldum vegna úrlausnar á skuldamálum sveitarfélagsins.
Á fundinum með bæjarstjórninni ræddu fulltrúar ungmennaráðs þau mál sem hvað heitast brenna á ungmennum í bæjarfélaginu um þessar mundir. Til umræðu var félagslíf ungmenna, strætósamgöngur og aðbúnaður í skólum. Rætt var um spjaldtölvuvæðingu og hvernig megi útvíkka starfsemi 88 hússins.
Ungmennin gerðu sér grein fyrir að staða sveitarfélagsins væri erfið og því settu þau fram hófsamar kröfur. Það var þó gagnrýnt á fundinum í síðustu viku að ungmennaráðið hafi ekki fengið að hitta bæjarstjórnina áður en gengið var frá fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Bæjarstjóri lofaði að næsti fundur yrði haldinn fyrir vorið og svo yrði seinni fundurinn í haust í tæka tíð fyrir gerð næstu fjárhagsáætlunar.
Ungmennin sem mættu á fund bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ásamt bæjarfulltrúum, bæjarstjóra og fulltrúum tómstundasviðs bæjarins.