Ungmenni á Suðurnesjum styðja Stuðla
-Stuðlar þurfa aðstoð til að geta hjálpað krökkum í mikilli neyslu
„Okkur langaði að halda styrktarviðburð. Það eru svo mörg ungmenni sem eru komin í mikla neyslu og Stuðlar þurfa aðstoð til að geta hjálpað þessum krökkum,“ segir Urður Unnardóttir en hún ásamt fjórtán öðrum ungmennum í unglingaráði Fjörheima, félagsmiðstöðvarinnar í Reykjanesbæ, hefur skipulagt styrktarkvöld sem haldið verður í Fjölbrautaskóla Suðurnesja miðvikudaginn 8. maí klukkan 19.
Allur ágóði kvöldsins rennur óskertur til stofunarinnar Stuðla en Stuðlar bjóða upp á greiningar- og meðferðarúrræði fyrir unglinga sem glíma meðal annars við vímuefnavanda og hegðunarörðugleika. Sigga Kling verður veislustjóri á viðburðinum og endar hún kvöldið á partýbingó. Þá mun Sólborg Guðbrandsdóttir fjalla um átak sitt gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi og Sigga Dögg kynfræðingur verður með trúnó. Viðburðurinn er opinn öllum unglingum og fullorðnum og kostar tvö þúsund krónur inn. Hægt verður þó að styrkja Stuðla aukalega á staðnum, hafi fólk áhuga á því.
„Okkur langaði til að hjálpa öðrum unglingum. Það er svo gott að vita að maður sé að hjálpa,“ segir Þorbergur Freyr Pálmarsson sem stendur einnig að baki styrktarkvöldsins. Kvikmyndin Lof mér að falla, sem sýnd var í fyrra, kom mikilli vitundarvakningu af stað meðal ungmenna og þykir unglingaráðinu mikilvægt að halda umræðunni á lofti. „Það eru miklu fleiri en maður grunar sem eru á vondum stað. Stuðlar þurfa á þessu að halda. Það skiptir miklu máli að við reynum ung að byrja að hafa áhrif á samfélagið. Þetta verður ótrúlega skemmtilegt kvöld,“ bætir Urður við.
Bingóspjöld verða seld á staðnum en það verður eingöngu í boði að greiða með reiðufé. Þá verður boðið upp á léttar veitingar en viðburðurinn er í samstarfi við Stapaprent, Sonic og Samkaup. Hægt er að nálgast miða í Gallerí Keflavík að Hafnargötu 32 og við hurð.