Ungmennaráð Sandgerðis stofnað
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefur samþykkt stofnun Ungmennaráðs Sandgerðisbæjar. Í bókun með samþykktinni segir m.a. að bæjarstjórn fagnar því að stofnað hafi verið fyrsta ungmennaráð í sögu Sandgerðisbæjar. Með stofnun Ungmennaráðs eflast tengsl ungs fólks við stjórnkerfi bæjarfélagsins og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sitt. Er það von okkar að ungmennaráð muni koma tillögum og skoðunum ungs fólks á borð bæjarstjórnar og verða bæjarstjórn ráðgefandi um mál sem varða hagsmuni þess í bæjarfélaginu.
Eftirtaldir aðilar voru skipaðir í fyrsta Ungmennaráð Sandgerðisbæjar:
Sunneva Ósk Þóroddsdóttir skipuð af Nemendaráði Grunnskólans í Sandgerði.
Ágúst Þór Sigfússon skipaður af Nemendaráði Grunnskólans í Sandgerði.
Davíð Smári Árnason skipaður af stjórn Knattspyrnufélagsins Reynis.
Grétar Karlsson skipaður af stjórn Golfklúbbs Sandgerðis.
Halldór Jón Grétarsson skipaður af stjórn Björgunarsveitarinnar Sigurvonar.
Særún Sif Ársælsdóttir skipuð af frístunda-, forvarna og jafnréttisráði.
Harpa Birgisdóttir skipuð af frístunda-, forvarna og jafnréttisráði.
Lög um Ungmennaráð og Erindisbréf Ungmennaráðs hafa verið staðfest.
Í erindisbréfinu segir: „Hlutverk Ungmennaráðs Sandgerðisbæjar er að vera frístunda-, forvarna- og jafnréttisráði til ráðgjafar um málefni sem varða ungt fólk. M.a. getur ráðið gert tillögur til frístunda-, forvarna- og jafnréttisráðs um hvernig best sé að standa að forvarnarmálum barna og ungmenna, hvernig æskilegt sé að haga starfsemi þeirra stofnana bæjarins sem ungmenni sækja og um önnur þau mál sem varða hagsmuni barna og ungmenna. Þá getur Ungmennaráð Sandgerðisbæjar gert tillögu að þátttöku ungmenna í viðburðum á vegum Sandgerðisbæjar“.