Ungmennaráð fundaði með bæjarstjórn
Fulltrúar ungmennaráðs Sandgerðisbæjar komu á fund bæjarstjórnar í síðustu viku. Á fundinum héldu þau erindi sem þau málefni sem þau hafa ákveðið að leggja áherslu á fyrir hönd ungs fólks í Sandgerði. Í frétt á vef Sandgerðisbæjar segir að fulltrúar ungmennaráðsins hafi undirbúið sig vel. Málefnin voru ákveðin með lýðræðislegum hætti og fóru fulltrúar ráðsins með hugmyndakassa í grunnskólann þar sem nemendum í 7. bekk og eldri gafst kostur á að koma með hugmyndir til að breyta eða bæta bæinn sinn. Málefnin voru svo ákveðin út frá hugmyndum úr kassanum.
Í ræðum sínum lögðu fulltrúar ungmennaráðsins áherslu auknar strætóferðir á kvöldin og um helgar, lagfæringu á gangstétt á Holtsgötu og að sett verði upp hjólabrettaaðstaða og hoppudýna á skólalóðinni. Bæjarstjórn tók vel í erindin og voru þau öll sett í ákveðinn farveg.
Fulltrúar ungmennaráðs ásamt bæjarstjórn Sandgerðis og bæjarstjóra.
Hlutverk ungmennaráða, samkæmt æskulýðslögum, sem tóku gildi árið 2007, er meðal annars að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Þessi grein laganna endurspeglar 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.