Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • Ungmennaráð á bæjarstjórnarfundi í Garði
  • Ungmennaráð á bæjarstjórnarfundi í Garði
Föstudagur 9. maí 2014 kl. 07:27

Ungmennaráð á bæjarstjórnarfundi í Garði

– María Ósk Guðmundsdóttir fyrsta ungmennið í ræðustól

Á bæjarstjórnarfundi í Sveitarfélaginu Garði á miðvikudag gerðist sá merki atburður, í fyrsta skipti í Garðinum, að fulltrúar í ungmennaráði sátu bæjarstjórnarfund.
 
Formaður ungmennaráðsins, María Ósk Guðmundsdóttir, bar fram tillögu, sem bæjarstjórn samþykkti og vísaði til bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar til umfjöllunar. María Ósk Guðmundsdóttir er því fyrsti fulltrúi ungmennaráðs Garðs til að stíga í ræðustól bæjarstjórnar.
 
Halldór Gísli Ólafsson fór einnig í ræðustól og sagði frá ungennaráðstefnu UMFÍ, sem hann og María sóttu á Ísafjörð, og lesa má um í fyrri fréttum hér á heimasíðu Garðs. Á þeirri ráðstefnu samþykktu ungmennin ályktanir til bæjarstjórna og alþingismanna, sem Halldór las upp fyrir bæjarstjórn og afhenti, en á ráðstefnunni voru um 70 ungmenni frá ungmennaráðum bæjarfélaga, hringinn í kringum landið.
 
Í erindisbréfi ungmennaráðs segir að ráðið skuli minnst sitja einn fund á ári með bæjarstjóra, einn fund með æskulýðsnefnd og einn fund með bæjarstjórn. Ráðið tók til starfa s.l. haust og hélt sinn fyrsta fund þann 17. desember, 2013. Ráðið hefur síðan fundað með æskulýðsnefnd í janúar á þessu ári og nú með bæjarstjórn.
 
Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með að ungmennaráð sé tekið til starfa í Garðinum og vonast eftir að slíkt starf eigi eftir að gera Garðinn að betri bæ til að búa í, segir í frétt á vef Sveitarfélagsins Garðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024