Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ungir sjálfstæðismenn hafna hugmyndum um meirihlutakaup í HS
Föstudagur 2. nóvember 2007 kl. 10:21

Ungir sjálfstæðismenn hafna hugmyndum um meirihlutakaup í HS

Ungir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir hafna með öllu hugmyndum um að bærinn eigi að skuldsetja sig um milljarða til að kaupa meirihluta í HS. Þá er í ályktuninni lýst yfir stuðningi við Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Ályktunin er svohljóðandi:

Heimir, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, undrast umræðuna í fjölmiðlum um málefni Hitaveitu Suðurnesja sl. daga. Umræðan einkennist af miklum tilfinningaþrunga og misskilningi þar sem fólk ruglar saman einkavæðingu HS annars vegar og sameiningu Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest hins vegar.
Fram hafa komið hugmyndir um að Reykjanesbær eigi að kaupa meirihluta í HS með því að skuldsetja sveitarfélagið um hátt í 10 milljarða króna og krefjast hámarksarðgreiðslu af HS hf. til að greiða niður skuldina. Miðað við um 5 – 7% vaxtabyrði af slíku láni getur dæmið aldrei gengið upp. Einnig er ljóst að við slíkar breytingar á eignarhaldi HS yrðu frekari áform um uppbyggingu fyrirtækisins hæpin, sem og möguleiki til fjármögnunar slíkra verkefna næstu áratugina.
Heimir leggur á það áherslu að félagið sé alfarið á móti því að Reykjanesbær skuldsetji sig um hátt í 10 milljónir á hvern íbúa - eingöngu til að eignast meirihluta í fyrirtæki sem það nú þegar á ráðandi hlut í. Heimir leggur einnig áherslu á að félagið sé á móti því að sveitastjórnarmenn taki þátt í útrásarverkefnum á borð við þau sem nú er unnið að í orkugeiranum á Íslandi.
Heimir minnir á að Reykjanesbær hefur ekki selt hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja ólíkt nokkrum öðrum sveitarfélögum. Það hlýtur því að teljast ómaklegt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar, með Árna Sigfússon í broddi fylkingar, sé að taka hitann og þungann af þessum málum þegar staðreyndin sé sú að Reykjanesbær er eina sveitarfélagið sem er að standa vörð um málefni HS. Því vill Heimir standa þétt að baki Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og stjórnarformanni Hitaveitu Suðurnesja, sem og öðrum bæjarfulltrúm Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ í þessari umræðu. Við teljum að nálgun Árna á þessu máli hafi verið hárrétt fram til þessa og hvetjum hann til að vinna áfram markvisst að því að ná fram þeim fimm meginn markmiðum sem hann hefur kynnt í þessu ferli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024