Ungir frumkvöðlar stofna bílastæðaþjónustu við flugstöðina

- Ekki í samkeppni heldur aukin þjónusta

Félagarnir Ómar Þröstur Hjaltason og Njáll Skarphéðinsson eru ungir frumkvöðlar af Suðurnesjum sem stofnuðu nýlega bílastæðaþjónustuna Base Parking við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þessi nýja þjónusta er fyrir þá sem vilja geyma bílana sína á öruggum stað á meðan dvalið er erlendis. Ferðamenn sem hafa komið á einkabílum í flugstöðina hafa margir hverjir lent í vandræðum með að finna bílastæði fyrir bíla sína. Þeir félagar fundu lausn á þessum vanda og bjóða þeim sem koma á einkabílum að taka bílinn við flugstöðina og aka honum á öruggt svæði á Ásbrú.

Bjóða upp á flotta þjónustu
„Það er svolítið mál að koma svona hugmynd í framkvæmd, það þarf að hafa drifkraft og löngun til að gera þetta. Við sáum þarna tækifæri þar sem svona þjónustu vantar við flugstöðina. Sambærileg þjónusta er þekkt víða erlendis við flugstöðvar. Hugmyndin er að bjóða upp á flotta þjónustu á góðu verði. Fólk hefur verið ánægt að sjá fjölbreytni á markaðnum. Þetta snertir langflesta Íslendinga þar sem flestir fara einhvern tímann til útlanda. Hópurinn sem nýtir þessa þjónustu er alveg frá 20 til 80 ára. Það er gaman að ná til svona stórs markhóps,“ segir Njáll.

Ekki í samkeppni heldur aukin þjónusta
„Við lítum ekki á að við séum í samkeppni við þá sem eru fyrir heldur að þetta sé aukin þjónusta. Við viljum bara vinna þetta með ISAVIA. Þeir sem starfa í og við flugstöðina hafa tekið okkur mjög vel,“ segir Ómar

Viðskiptavinir eru ánægðir
Þjónustan fer þannig fram að byrjað er að hafa samband símleiðis og í framhaldi er sendur tölvupóstur með öllum þeim upplýsingum sem þurfa að koma fram. „Við erum mættir þegar viðskiptavinirnir koma í flugstöðina, tökum við lyklum og færum hann á svæðið hjá okkur. Við komum svo til baka með bílinn þegar viðskiptavinurinn kemur heim frá útlöndum. Þeir sem hafa nýtt sér þessa þjónustu eru ánægðir með hversu einfalt þetta sé. Greiðslan fer þannig fram að hún kemur í heimabanka viðkomandi og því þarf ekki að greiða á staðnum. Við fáum bara lyklana og viðskiptavinurinn fer inn í flugstöðina og þarf ekkert að hugsa um greiðsluna,“ segir Njáll.

Leggjum mikið upp úr góðri þjónustu
„Við vitum nákvæmlega hvenær bíll er að koma til okkar. Við erum búnir að skrá niður nauðsynlegar upplýsingar, þannig að við sjáum þegar bíllinn nálgast. Við leggjum mikið upp úr þjónustu, fólk á ekki að þurfa að bíða neitt. Við erum í SMS samskiptum við viðskiptavininn og hann lætur okkur vita þegar hann er að koma út úr flugstöðinni. Við keyrum bílana frá Ásbrú og þá er bíllinn orðinn heitur þegar við afhendum hann. Við vorum að fá frábært svæði á Ásbrú, gamalt flugskýli sem var síðast þekkt undir Atlandic Studios. Þetta er afgirt útisvæði með stórri innigeymslu. Munurinn á þessu og venjulegu bílastæði er sá að við leggjum bílunum sjálfir og það ætti að lágmarka líkur á tjóni. Þetta eru allt fagmenn frá okkur sem eru að leggja bílunum. Svæðið er vaktað þannig að það er ekki nein umferð um svæðið nema frá okkar starfsmönnum,“ segir Ómar.

Markaður fyrir svona þjónustu
Þegar þeir félagar eru spurðir hvaðan þessi hugmynd hafi komið, tala þeir um þeir hafi séð þörf fyrir svona þjónustu. „Við erum með frumkvöðla genin í okkur. Ómar hefur verið að geyma bíla í tengslum við „Keyrðu mig heim“. Við sáum að það var markaður fyrir svona þjónustu en við áttum ekki von á þessum góðu viðbrögðum,“ segir Njáll.

Strax komnir um 150 bílar í geymslu
Það er mest að gera hjá þeim frá miðnætti og til átta á morgnanna. „Yfirleitt er fyrirvarinn góður en það kemur fyrir að fólk hringi með stuttum fyrirvara. Þá reynum við að koma því fyrir. Ef við getum mögulega tekið við bílnum þá gerum við það. Síminn stoppar yfirleitt ekki frá 11 á morgnanna og til miðnættis, þá eru að koma inn pantanir. Það eru um það bil 20 bílar að koma til okkar á hverjum sólarhring. Það eru um 150 bílar í geymslu hjá okkur núna,“ segir Ómar.

Keyrðu mig heim
„Hugmyndin af „Keyrðu mig heim“ kom þegar vinur minn var tekinn ölvaður. Hann var búin að fá sér nokkra drykki og missti prófið. Hann vildi mæta í partýið á fína bílnum sínum. Ég prófaði mig áfram og áður en ég vissi af var stór hluti fjármálageirans farinn að nýta sér þetta. Fólk fer út að borða og fær sér drykk með matnum. Þeir sem eru í viðskiptum við „Keyrðu mig heim“ eru margir búnir að vera hjá mér í mörg ár. Ég er komin með mikið af föstum viðskiptavinum. Þetta virkar svipað og þjónustan upp á Keflavíkurflugvelli, fólk hringir og pantar þjónustuna, við komum og fáum lyklana af bílnum og keyrum fólk heim. Fólk vaknar með bílinn fyrir utan heimilið daginn eftir. Ég ætla að halda áfram með „Keyrðu mig heim“, þetta er eins og barnið manns,“ segir Ómar.

Áttu ekki von á að þetta yrði svona vinsælt
„Keyrðu mig heim“ og „Base Parking“ passa vel saman. Þeir félagar búast við því að þeir sem þekki þjónustuna hjá „Keyrðu mig heim“ muni einnig nýta sér bílastæðaþjónustuna á Keflavíkurflugvelli. „Við áttum ekki von á því að þetta yrði svona vinsælt en við viljum reyna að halda þessu áfram á persónulegum nótum. Við viljum að það sé einhver sem svarar í símann þegar þú pantar þjónustuna. Í framhaldi er svo sendur tölvupóstur með upplýsingum. Við viljum vera góðum í samskiptum við viðskiptavini okkar,“ segir Njáll.

Frábært að gera þetta á okkar svæði
„Það er gaman hvað Suðurnesjamenn eru að taka rosalega vel í þetta. Við erum að fá rosalega góð viðbrögð hjá þeim sem sem við erum að hitta í flugstöðinni. Öllum finnst frábært að tveir ungir frumkvöðlar frá Suðurnesjum séu á bak við þessa þjónustu. Okkur finnst frábært að gera þetta á okkar heimasvæði,“ segja þeir félagar að lokum.