Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ungbarnadeild stofnuð í Leikskólanum Háaleiti
Sunnudagur 26. október 2008 kl. 13:18

Ungbarnadeild stofnuð í Leikskólanum Háaleiti



-Dagforeldrar óttast að fá færri börn.

Foreldrar ungra barna hafa nú enn einn valkost um dagvistun barna frá 9 mánaða til 2ja ára. Leikskólinn Háaleiti stefnir nú að því að stofna ungbarnadeild. Það eru viðbrögð við dræmri aðsókn í skólann. Einungis 20 % nýting er í skólanum, þar eru nú 17 börn en leikskólinn getur tekið við 80 börnum.

Sú ákvörðun að stofna ungbarnadeild er tekin af hálfu rekstraraðila skólans, sem er Skólar ehf.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri sagði að dagmæður í Reykjanesbæ hefðu mætt á fund með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra, það sem þeim var gerð grein fyrir stöðu mála.
Hjördís sagði að um 30 dagmæður væru starfandi í Reykjanesbæ sem þýðir að þær eru með leyfi frá Bæjarfélaginu. Leyfi er veitt til þriggja ára í senn fyrir fimm börnum.
Dagmæðurnar geta því gætt 150 barna ef allar fylla kvótann sinn. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni búa 426 börn á 1 ári og 1 árs í Reykjanesbæ. Dagmömmur geta því gætt um 35% af aldurshópnum og hafa enn laus pláss.

Guðrún Þ. Ævarsdóttir, formaður dagmæðra, sagði að þær hefðu fundað eftir að þær fréttu af stofnun nýju deildarinnar á Vallarheiði. Þær eru ósáttar við að foreldrum sem kaupa þeirra þjónustu, sé boðið leikskólapláss, og finnst vegið að þeirra starfi.
„Við vorum ekki látnar vita af þessu og það eru margir dagforeldrar búnar að leggja út í mikinn kostnað til að fá leyfi hjá Reykjanesbæ. Við vitum að margir foreldrar vilja heldur að ungabörnin séu í heimilislegu umhverfi og velja því dagforeldra fremur en leikskóla.“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði að Reykjanesbær myndi ekki niðurgreiða fyrir börn yngri en tveggja ára. Það væri í stefnu bæjarfélagsins og því yrði ekki breytt.
Hann sagði einnig að Leikskólinn Háaleiti þyrfti ekki sérstakt leyfi frá Reykjanesbæ til að stofna ungbarnadeild. Stofnun ungbarnadeildarinnar væri alfarið ákvörðun rekstaraðila leikskólans sem hafa heimild til að reka leikskóla og fara eftir lögum og reglum. Leikskólinn Háaleiti getur tekið til sín ung börn en engin niðurgreiðsla mun berast frá Reykjanesbæ vegna þeirra.

Leikskólinn Háaleiti er að fara á nýja braut sem aldrei hefur verið farin í Reykjanesbæ. Hér fá foreldrar barna frá 9.mánaða til 2ja ára fá greiddar umönnunarbætur að upphæð 30.000 kr pr mánuð. Það gera 450.000 kr. fyrir hvert barn. Foreldrar ráða hvernig þeir ráðstafa peningunum en algengt er að nota greiðsluna til dagmæðra. Þeir sem ákveða að vera heima með ungum börnum sínum fá einnig umönnunarbætur greiddar frá Reykjanesbæ.

Það á eftir að koma í ljós hvernig dagmæðrum mun reiða af í bæjarfélaginu og hvort ungbarnadeildin í Leikskólanum Háaleiti mun hafa þar áhrif á.







Viðtal við Pétur Guðmundsson, framkvæmdastjóra Skólar ehf.

Hvernig hefur aðsóknin verið og hvenær mun deildin hefja starfa?
Við höfum í raun ekkert auglýst þetta sérstaklega, við höfum verið að hringja í foreldra sem eru á biðlista hjá okkur og foreldrar hafa tekið vel í þetta og við vonumst til að geta opnað þessa deild fljótlega um mánaðarmótin.

Eru þetta nauðsynlegar aðgerðir vegna dræmrar aðsóknar í leikskólann?
Við gerðum ráð fyrir að opna 2 deildir strax og leikskólinn yrði tilbúin og réðum starfsfólk samkvæmt því en samsetning á börnunum sem fluttu hingað voru greinilega ekki á þeim aldri sem við höfðum búist við og því ekki fleiri börn sem við gátum tekið inn á leikskólann á þeim formerkjum. Við vorum auðvita með allt of mikið af starfsfólki miðað við börn en ákváðum að gefa þessu smá tíma og sjá hvort börnin mundu skila sér. Starfsfólk hefur því fengið góðan tíma til að undirbúa leikskólastarfið, sem er auðvita mjög gott fyrir leikskólann.

Um mánaðarmótin september og október var ljóst að þessi börn voru ekki til staðar sem við bjuggumst við og því tókum við þá ákvörðun að skoða með að taka inn börn á biðlista okkar sem kæmu þá inn á „dagmæðrastofu“ til að þurfa ekki að segja upp starfsfólki sem við höfðum þegar ráðið. Ætlunin er að þetta verði hefðbundin leikskóli og allar deildir verða þá með börn sem eru á leikskólaaldri en þetta eru tímabundnar aðgerðir til að geta haldið í það starfsfólk sem við erum búin að ráða inn á leikskólann.

Eruð þið að ganga inná störf dagforeldra í Reykjanesbæ?
Við lítum ekki á þetta þannig, við erum eingöngu að reyna að koma í veg fyrir að þurfa ekki að segja upp starfsfólki sem er hjá okkur.

Verða hærri leikskólagjöld fyrir þennan aldurshóp?
Þetta er í raun ekki leikskólagjöld, þetta er hugsað sem svipuð lausn og hjá dagforeldrum og gjaldið samkvæmt því.
Að opna þessa dagmæðrastofu er ekki eitthvað sem við ætluðum okkur og er þetta hugsað sem tímabundin lausn til að þurfa ekki að segja upp starfsfólki sem er að vinna á leikskólanum í dag. Við höfum fengið gott starfsfólk sem er búið að vinna mjög vel við að undirbúa leikskólastarfið. Við vitum að þessi vinna muni skila sér í góðu leikskólastarfi fyrir börnin og vonum að þau komi til með að njóta sín sem best hjá okkur í framtíðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024