Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Unga fólkið um Reykjanesbrautina
Þriðjudagur 4. apríl 2017 kl. 06:00

Unga fólkið um Reykjanesbrautina

„Þetta málefni snertir okkur öll“ - „Ólýsanlega sorglegt að slys þurfi að eiga sér stað svo einhverjar ráðstafanir verði gerðar“

„Umræðan um Reykjanesbrautina hefur verið áberandi undanfarna mánuði. Mikil þörf hefur verið síðustu ár á því að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar alla leið en ég tel að nú sé nauðsyn. Ég keyri Reykjanesbrautina daglega og í hvert einasta skipti sem farið er yfir á einbreiða kaflann kemur upp svolítil óþægindatilfinning. Að keyra til vinnu eða skóla á ekki að þurfa að vekja upp óhug fólks, það á ekki að vera líðandi í samfélagi eins og okkar. Hver einn og einasti Suðurnesjamaður annað hvort keyrir þessa braut reglulega eða á einhvern nákominn sem gerir það. Þetta málefni snertir okkur öll og við þurfum að halda áfram að standa saman og vekja athygli á mikilvægi þess,“ segir Anna Katrín Gísladóttir.

Súsanna Margrét Gunnarsdóttir hafði þetta um málið að segja: „Ég held að ég tali fyrir flesta þegar ég segi að Reykjanesbrautin sé stórhættulegur vegur og hvað þá einbreiði kaflinn. Þessi vegur einkennist af djúpum hjólförum og holum. Sama á við um Grindavíkurveginn. Samtals fimm banaslys hafa orðið á þessum tveimur vegum á síðustu sjö mánuðum, fyrir utan önnur slys. Það er ólýsanlega sorglegt að slys þurfi að eiga sér stað svo einhverjar ráðstafanir verði gerðar, en ef þetta kallar ekki á tvöföldun allrar Reykjanesbrautar og lagfæringu veganna þá veit ég hreinlega ekki hvað gerir það.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Marinó Erni Ólafssyni finnst mikilvægt að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. „Akkúrat núna eru of mörg hættuleg gatnamót á veginum. Þetta þarf að laga. Svo er ég mjög spenntur fyrir hraðlestarhugmyndum. Hraðlest gæti fækkað ferðum á Reykjanesbrautinni og sparað Suðurnesjamönnum sem sækja nám eða vinnu á höfuðborgarsvæðið samgöngukostnað.“

Markús Már Magnússon tekur undir með hinum þremur.
„Mér finnst hrikalegt að það þurfi alltaf einhvað slæmt að gerast, einhver slys, til þess að eitthvað sé gert í málinu. Ég held ég hafi lesið að það hafi ekki orðið neitt banaslys þar sem brautin er tvöföld sem segir okkur það að ef brautin væri tvöföld alls staðar þá myndi það draga heilmikið úr slysum og öðru slíku.“