Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. ágúst 2000 kl. 16:03

Undraverður jurtaáburður

Íslenskur jurtaáburður sem dregur úr bólgum og verkjum, læknar exem og gyllinæð, mýkir og græðir, svo eitthvað sé nefnt, er framleiddur í húsi einu í Keflavík. Anna Olsen þróaði uppskriftina og hefur um nokkurt skeið leyft fólki að njóta lækningamáttar áburðarins. Silja Dögg Gunnarsdóttir kíkti í kaffi til hennar og fékk að heyra hvað var til þess að hún fór að sjóða saman jurtir og búa til krem. Ætlaði bara að hjálpa „Þetta byrjaði allt saman fyrir um tveimur árum en vinkona mín var mjög slæm í húðinni. Ég fór að hugsa um hvernig ég gæti hjálpað henni og fór að afla mér upplýsinga um jurtir og lækningamátt þeirra. Ég fékk mikinn áhuga á þessu og las nánast allt sem ég komst yfir“, segir Anna en tekur fram að takmarkið hafi aldrei verið að fara út í framleiðslu heldur aðeins að hjálpa vinkonu sinni. Hún prófaði ýmsar samsetningar á jurtum og fann að lokum uppskrift sem hún taldi að myndi virka. Vantaði bara nornahattinn „Ég sagði við manninn minn að nú væri ég komin með réttu uppskriftina og sendi hann heim til að ná í stóra pottinn hennar mömmu, sleif og tölvuvog, enda þurfa hlutföllin að vera hárnákvæm. Tengdasyni mínum varð að orði þegar hann sá mig hræra í pottinum að nú vantaði ekkert annað en nornahattinn“, segir Anna og hlær. Ótrúleg virkni Anna sauð saman jurtirnar, sem hún hafði mikla trú á og útkoman varð betri en hún þorði að vona. „Ég leyfði fólki að prófa áburðinn hjá mér og síðan fór þetta að spyrjast út. Tengdamóðir mín var t.d. lengi búin að vera með exem í lófunum sem átti það til að rifna upp. Hún notaði áburðinn og hafði hann á sér þrjár nætur í röð, og viti menn, exemið var horfið“, segir Anna og bætir við að fólk með gyllinæð hafi líka fengið bót meina sinna með því að nota jurtaáburðinn hennar. „Fólk er reyndar voðalega feimið að segja frá því að það sé með gyllinæð, en þeir sem vilja geta haft samband við mig og ég get ráðlagt þeim varðandi meðhöndlun á þessu vandamáli.“ Anna segir áburðinn hafa svo fjölbreytilega virkni að erfitt sé að telja allt upp, hann er t.d. kláðastillandi, bólgu- og verkjaeyðandi og mjög græðandi. „Ég hef t.a.m. notað hann við hálsbólgu, kvefi og hæsi og árangurinn hefur verið mjög góður“, segir Anna. Vil ekki græða á fólki Í fyrstu gaf Anna áburðinn en kostnaðurinn við hráefniskaup var orðin það mikill að hún gat ekki staðið í því lengur og seldi hann á kostnaðarverði. „Ég hafði ekki samvisku í að sitja á áburðinum og vildi leyfa fólki að prófa. Það kom síðan aftur og vildi meira. Mér datt ekki í hug að selja áburðinn því ég trúi því að þegar manni er gefið eitthvað þá á maður ekki að græða á því. Mér finnst mannlegi þátturinn svo mikið vera dottinn út úr þjóðfélaginu, það eru allir að reyna að græða á öllum. Hvað mig varðar þá fæ ég miklu meira en borgað fyrir það sem ég geri fyrir fólk, því það sýnir mér þakklæti sitt í verki“, segir Anna. Vinsæll hannyrðaklúbbur Anna hefur rekið verslun í kjallaranum á Hafnargötu 26 um nokkurra ára skeið, Hjá Önnu. Þar eru seldar garn- og föndurvörur. Fyrir jólin í fyrra byrjaði hún með skemmtilegan klúbb en þar geta áhugasamir hist og unnið ýmis konar handverk. „Það er margir sem kunna að prjóna en vantar kannski smá leiðsögn við eitt og annað. Konurnar sem voru hjá mér komu svo sjálfar með alls konar hugmyndir og ég kenndi þeim t.d. að gera bæði konfekt- og könglakransa. Ég hef áhuga á að gera þetta aftur í vetur og þeir sem vilja vera með eða fá frekari upplýsingar geta komið í búðina til mín eða hringt í síma 421-5019.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024