Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Undrast samingsdrög um landakaup Reykjanesbæjar í lögsögu Grindavíkur
Mánudagur 29. júní 2009 kl. 22:48

Undrast samingsdrög um landakaup Reykjanesbæjar í lögsögu Grindavíkur

„Grindavíkurbær lýsir yfir undrun sinni með yfirlýst samningsdrög milli HS Orku hf. og Reykjanesbæjar um landakaup í lögsögu Grindavíkur. Þetta er sagt í ljósi þess að stjórn HS Orku hf. hefur nýlega lýst því yfir að eðlilegast sé að Grindavíkurbær sé eigandi þess lands sem í lögsögu bæjarins er og nýtist til orkuvinnslu. Bæjarráði Grindavíkur barst erindi frá HS Orku hf. dags. 8. júní sl. þar sem bærinn fær einungis fjóra daga eða til 12. júní til að tjá sig efnislega um þetta mikilvæga mál. Þetta er með öllu óeðlilegt, segir í yfirlýsingu sem Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri Grindavíkur og Petrína Baldursdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkur, hafa sent frá sér.

Þær bæra við: „Á það skal bent að Grindavíkurbær hefur nýlokið við stefnumótandi vinnu varðandi auðlindastefnu í lögsögu bæjarins. Í henni felst m.a. mikilvægi þess að um jarðhitaauðlindina sem og aðrar auðlindir verði gengið af varfærni og gætni, þannig að þær nýtist komandi kynslóðum til framtíðar. Það telst því ábyrg stjórnsýsla að fara vel yfir allar forsendur er varðar skipulagsmál og leyfisveitingar er varðar röskun lands og nýtingu jarðhitaauðlindar.

Í tengslum við gerð aðalskipulagsvinnu sem er í vinnslu, hefur bærinn átt samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sem veitir starfsleyfi fyrir orkuver HS Orku hf. og Orkustofnun sem hefur eftirlitshlutverki að gegna varðandi auðlindanýtingu á svæðinu. Í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur komið fram að HS Orka hf. virðist ekki uppfylla skilyrði fyrir starfsleyfi orkuvera í Svartsengi er stærð affallslóna snertir. Í samskiptum við Orkustofnun, nú síðast með bréfi Orkustofnunar til HS Orku hf. dags. 11 júní sl. er vakin athygli á þessu. Í bréfinu er HS Orka hf. einnig beðin um að gefa svör við mikilvægum spurningum varðandi vinnslu og massatöku úr jarðhitasvæðinu er tengist 30 MW vinnslueiningu Orkuvers 6 í Svartsengi. Orðrétt segir í bréfi Orkustofnunar "..óskar Orkustofnun skýringa HS Orku á því hvers vegna starfsemi Orkuvers 6 virðist hafa farið út fyrir þau skilyrði sem sett voru í framangreindu leyfi, dags. 7. janúar 2008". Hér er vísað til leyfis iðnaðarráðherra til Hitaveitu Suðurnesja hf. til að reisa og reka 30 MW hverfil Orkuvers 6 í Svartsengi.

Í þessu sambandi er einnig vert að nefna að á fundi Grindavíkurbæjar með Orkustofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja þann 29. maí sl. var lagði Orkustofnun áherslu á að sveitarfélagið afgreiddi engin leyfi til HS Orku hf. fyrr en svör bærust frá HS Orku hf. varðandi orkuvinnsluna og affallslón.

Það er því ljóst að Grindavíkurbær getur að teknu tilliti til bréfs Orkustofnunar dags. 11. júní ekki tekið neinar ábyrgar og stefnumótandi ákvarðanir um þau atriði sem fram koma í erindi HS Orku hf. til bæjarins dags. 8. júní sl.

Á það skal bent að HS Orka hf. hefur enn ekki svarað bréfi Orkustofnunar frá 11. júní sl. Það er einnig á grundvelli erindis Orkustofnunar sem bæjarráð bókaði í 18. lið þann 24. júní sl. að fyrst verði að berast skýr svör við erindi Orkustofnunar til HS Orku hf. áður en endanlega verði gengið til samninga HS Orku hf. um landakaup. Í bókun á lið 17 frá sama fundi kemur einnig fram ósk bæjarráðs Grindavíkur þess efnis að Orkustofnun, HS Orka hf. og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja komi til fundar með bæjarstjórn og Skipulags - og byggingarnefnd til að fara yfir efni bréfs Orkustofnunar í ljósi alvarleika málsins. Bókanir bæjarráðs fóru samdægurs í bréfi til HS Orku hf. Enn hafa engin viðbrögð borist frá HS Orku hf. við því bréfi bæjarráðs Grindavíkur“. Undir þetta rita Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri og Petrína Baldursdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024