Undirrituðu samning um heilsueflandi samfélag
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Birgir Jakobsson, landlæknir, undirrituðu á mánudag samning þess efnis að Reykjanesbær verði aðili að verkefni embættis Landlæknis, Heilsueflandi samfélag. Í framhaldinu verður myndaður stýrihópur ýmissa hagsmunaaðila sem mun veita verkefninu brautargengi.
Reykjanesbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi í upphafi Heilsu- og forvarnarviku sem nú stendur yfir. Á mánudag var einnig greint frá nýjum niðurstöðum Rannsóknar og greiningar á högum og líðan ungs fólks. Nánar verður skýrt frá niðurstöðunum síðar en könnunin, sem gerð hefur verið reglulega til margra ára, sýnir að kjör og líðan ungs fólks í Reykjanesbæ hafa batnað mikið á undanförnum árum.
Eftirfarandi felst í heilsueflingarstarfinu
• Markvisst er unnið með áhrifaþætti heilbrigðis.
• Heilsuefling er ferli sem gerir fólki kleyft að hafa aukin áhrif á heilsu sína og bæta hana
• Holla valið þarf að vera eins auðvelt og mögulegt er þar sem fólk býr, starfar og leikur sér (óháð aldri, kyni eða félagslegri stöðu).