Undirgöng undir Reykjanesbraut við Grænás
Vegagerðin og Reykjanesbær hafa auglýst eftir tilboðum í gerð undirganga undir Reykjanesbraut við Grænás. Undirgöngin verða rétt norðan við nýtt hringtorg á vegamótum Reykjanesbrautar og Grænásvegar/Grænásbrautar.
Undirgöngin eru gerð bæði fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda og fyrir reiðmenn. Í verkinu er einnig innifalin gerð göngu- hjóla- og reiðstíga að og frá göngunum ásamt landmótun aðliggjandi svæða. Vegna framkvæmdarinnar þarf að færa aðalvatnsveituæð HS Veitna sem liggur fyrir austurenda væntanlegra undirganga.
Meðan vinna við undirgöngin fer fram mun umferð um Reykjanesbraut fara um hjáleið sem gerð verður vestan brautarinnar.
Áætlað er að verkið geti hafist um mánaðarmót apríl/maí og verði að fullu lokið í lok september.