Undirbúningur við framkvæmdir í Festi í fullum gangi
Undanfarnar vikur hefur verið í nógu að snúast hjá þeim sem ætla að endurbyggja Festi. Á heimasíðunni www.festi.is kemur fram að allt hefur gengið samkvæmt áætlun og senn líður að þeir mæta með verkfærin á verkstað. Aðallega er gert ráð fyrir skrifstofum, verslunum, þjónustu og kaffihúsi í nýju Festi en ekki samkomusal.
„Í hönnun er t.d. búið er að prófa nokkrar mismunandi útfærslur og hvað okkur finnst koma best út. Útfærslan sem okkur fannst koma best út felur m.a. í sér að við byggjum yfir núverandi port og setjum það "inngarð" sem við getum líka nýtt sem sal. Við tökum einnig "hattinn" sem er nú yfir núverandi sal og færum hann yfir nýja salinn í "inngarðinum". Öllu útliti er síðan haldið sem næst sinni upprunalegu mynd," segir m.a.
Að baki Fasteignafélaginu Festi standa Brynjar Pétursson nuddari í Grindavík, Rúnar Sigurjónsson málari í Grindavík og Pétur Bragason verkfræðingur í Garði. Þeir félagar reka allir sín eigin fyrirtæki í dag sem eru Englaberg, Málningarþjónusta Rúnars og Verkfræðistofan Verkmáttur. Þremenningarnir hafa sýnt Festi mikinn áhuga í gengum árin og vilja sjá aftur líf í húsinu sem fyrst og hefja það til vegs og virðingar að nýju.