Atnorth
Atnorth

Fréttir

Undirbúningur vegna Sandgerðisdaga í hámarki
Föstudagur 20. ágúst 2004 kl. 11:04

Undirbúningur vegna Sandgerðisdaga í hámarki

Sandgerðisdagar verða haldnir hátíðlegir dagana 27. og 28. ágúst. Undirbúningur er nú í algleymi og verður þar margt um góða gesti og skemmtilegar uppákomur.

Reynir Sveinsson, einn af aðstandendum hátíðarinnar sagði í samtali við Víkurfréttir að allir ættu að geta fyndið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin er sett á föstudag en á fimmtudeginum má segja að henni sé forstartað þar sem Púlsinn Ævintýrahús og Mamma Mía slá upp kvöldskemmtun.
Hátíðin í ár fer fram á öðrum stað en vanalega, nefnilega Tikk-Húsinu við höfnina. Þar er nóg pláss jafnt innan húss sem utan þannig að ef veður er ekki hagstætt er hægt að flýja í skjól innandyra.

Á föstudagskvöld verður m.a. sundlaugapartý fyrir krakkana og KK verður með tónleika á Mamma Mía.
Sannkölluð tívolístemmning verður við Tikk-húsið á laugardeginum. Þar verður markaður þar sem maður getur keypt allt á milli himins og jarðar. Margt verður um góða gesti eins og áður sagði og þar fer fremst í flokki poppdrottningin sjálf, Birgitta Haukdal, sem mun taka nokkur lög ásamt Vigni félaga sínum úr Írafári.

Hátíðinni verður svo slitið opinberlega á laugardagskvöld með flugeldasýningu, brennu og bryggjusöng.
„Við hljótum að fá gott veður,“ sagði Reynir að lokum. „Við bjóðum bara alla velkomna og vonumst til að sjá sem flesta.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn